Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:28:44 (423)

2003-10-09 16:28:44# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum búin að taka áhættuna, það er rétt. En það er algjör óþarfi að auka hana eins og hér er lagt til. Mig langar líka að benda hæstv. landbrh. á að vera ekki að tala um húsdýrin og villta stofna í sömu setningunni. Það er ekki það sem við erum að ræða. Við erum að ræða um villta laxastofna, stofna sem eru mjög sérstakir á heimsvísu og okkur ber skylda til þess að vernda, ekki bara okkar vegna heldur af ýmsum öðrum ástæðum.

Svona rétt í lokin, hæstv. forseti, þá hefur, eins og ég sagði áðan, hæstv. landbrh. fært mikil og gild þjóðréttarleg rök fyrir máli sínu á grundvelli EES-samningsins. Það er óneitanlega kaldranalegt að standa frammi fyrir því eina ferðina enn í umfjöllun um frv. til laga eða þáltill. á hinu háa Alþingi, að standa frammi fyrir einhverju sem virðist gerður hlutur, búið og gert, vegna þess að við erum aðilar að samningi sem gerir það að verkum að við erum viðtakendur, þiggjendur og höfum ekkert um það að segja hvernig forsagnir, tilskipanir, reglugerðir og annað sem frá Brussel kemur er samið. Við höfum ekkert um það að segja, hæstv. forseti. (Landbrh.: Þessu vöruðum við við, andstæðingar EES-samningsins.) Já, þessu vöruðu andstæðingar EES-samningsins við. Við sem vorum fylgjandi EES-samningnum, þó ekki værum á þingi, og erum fylgjandi aðild að ESB erum frekar þeirrar skoðunar að við eigum að bera höfuðið hátt og gæta hagsmuna okkar með þeim hætti að það beri einhvern árangur í Brussel.