Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:58:52 (428)

2003-10-09 16:58:52# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í fyrsta lagi að gagnrýna frágang þessa máls af hálfu hæstv. ráðherra eins og hann leggur það fyrir þingið, að því skuli engin greinargerð fylgja. Bráðabirgðalögin eru auðvitað ekki greinargerð í venjulegum skilningi þess orðs, heldur bara endurprentun. Í raun og veru er frv. endurprentun á bráðabirgðalögunum án nokkurra skýringa. --- Það er auðvitað gleðiatburður að hv. þm. Gunnar Birgisson er kominn í salinn en hann má samt ekki trufla þinghaldið of mikið. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi athyglisgáfu til þess að bæði hlusta á mig og rabba við hv. þm. Gunnar Birgisson (Gripið fram í: Hárrétt.) í sömu andrá. Ég er ekki viss um það þótt ég ætli ekki að halda því fram að hann geti ekki tuggið tyggigúmmí og hlustað í sömu andrá eins og sagt var um annan ónefndan frammámann.

Ég gagnrýni það, herra forseti, að þessu frv. skuli ekki fylgja ítarleg greinargerð og eðlilegur rökstuðningur. Það breytir engu þó að menn hafi haft mál af þessu tagi til meðferðar á þinginu áður. Nú er hér nýtt þing saman komið og fær frv. sem hefði auðvitað átt að vera eitt fyrsta mál hæstv. ríkisstjórnar samkvæmt þeirri lagaskyldu og stjórnarskrárskyldu að leggja bráðabirgðalög strax fyrir þing, og því átti að sjálfsögðu að fylgja ítarlegur rökstuðningur.

[17:00]

Ég vil segja um málið sem slíkt að í mínum huga er afar mikilvægt að verja þá víglínu sem lengst af hefur verið gert, að í höndum okkar Íslendinga sjálfra sé réttur til að takmarka, stjórna eða banna innflutning á lifandi dýrum. Kannski væri réttara að tala hér um lífverur í þessu sambandi. Það hangir geysilega margt á þeirri spýtu. Sumt af því hefur viðskiptalegt gildi en annað snýr beint að náttúruvernd, bæði því að verja lífríkið fyrir sjúkdómum, koma í veg fyrir erfðamengun eða halda íslensku erfðaefni hreinu og þar fram eftir götunum.

Þetta frv. er auðvitað mjög sorglegt undanhald. Því verður ekkert á móti mælt. Þó að menn sperri stél og skelli skuldinni á Eftirlitsstofnun EFTA þá breytir það ekki innihaldi frv. Það gerir það bara ekki. Hér er verið að leyfa innflutning á lifandi dýrum fram hjá því einangrunarstöðvakerfi sem reynt hefur verið að nota sem hlið inn í landið í öllum öðrum tilvikum. Framan í það verður hæstv. landbrh. að horfa.

Ég gagnrýni hvernig haldið hefur verið á málsvörn og framgöngu Íslands að þessu leyti í samskiptum við evrópskar eftirlitsstofnanir. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þar hafi menn varið íslenskan málstað eins og kostur var í hverju tilviki. Ég tel að menn hafi lekið niður og ekki unnið heimavinnuna sína almennilega. Það er auðvitað nöturlegt að það skuli þurfa utanaðkomandi aðila til að draga fram lagaleg rök og benda á möguleika sem ráðuneytinu virðist hafa yfirsést í samskiptum við stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins og áður en gripið var til bráðabirgðalagasetningar og reglugerðarútgáfu á þeim grundvelli.

Væntanlega er ekki um það að deila að við urðum að fullgilda með einhverjum hætti nefnda tilskipun, nema við hefðum valið erfiðu leiðina, að falla ekki frá stjórnskipulegum fyrirvara og fá á okkur mögulegar refsiaðgerðir og annað í þeim dúr vegna þess að við værum að brjóta þá skyldu að fullgilda viðeigandi reglugerð eða tilskipun. Hins vegar er ekki þar með sagt að við getum engum vörnum komið við eftir sem áður. Það sem ég tel að hér hefði átt að gera var að fullgilda tilskipunina þegar öll sund voru lokuð en halda í íslenskum lögum öllum þeim ýtrustu heimildum sem við gátum engu að síður haft, láta á þær reyna og láta þá Eftirlitsstofnun EFTA sækja á okkur um að þær takmarkanir stæðust ekki sem við héldum þar til haga. Með það mál hefði verið hægt að fara alla leið og fyrir dómstóla.

Hefðum við t.d. getað reist takmarkanir okkar á því að við værum að verja erfðaefni íslenska laxins, þetta væru ekki bara sjúkdómavarnir heldur væri þetta líka byggt á ákvæðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og annað í þeim dúr? Þá held ég nú að farið hefði að sljákka í Eftirlitsstofnun EFTA að sækja á okkur. Ætli það hefði ekki verið býsna sterk ástæða að við værum hér að verja síðasta vígi íslenska laxins, villta laxins í Norður-Atlantshafi? Ég hef grun um það.

Síðan verð ég að segja að mér finnst rökstuðningur hæstv. ráðherra fyrir því að setja bráðabirgðalög í sumar slakur, eftir að Alþingi hafði hafnað að samþykkja málið nokkrum vikum áður. Það er staðreynd (Gripið fram í.) að Alþingi afgreiddi málið ekki. Það er ákveðin niðurstaða (Gripið fram í.) af hálfu löggjafans. Það er niðurstaða líka, hæstv. ráðherra, að afgreiða málið ekki. Ráðherra lagði málið fram til þess að fá það afgreitt, var það ekki?

Þingið afgreiddi málið ekki. Samt taldi ráðherrann sig hafa stöðu til að setja bráðabirgðalög, eins og það skipti bara engu máli að Alþingi féllst ekki á að afgreiða málið í þeim búningi sem ráðherra lagði það fyrir. Ég tel að teygt hafi verið mjög á bráðabirgðalagavaldinu. Í hverra þágu? Jú, þeirra hagsmuna sem hér er talað um í greinargerðinni. Hverjir eru þeir í reynd? Það eru afar takmarkaðir viðskiptahagsmunir, sennilega eins fyrirtækis, til að flytja út laxahrogn og að hluta til að selja sjálfu sér í útlöndum.

Hvað þarf til að bráðabirgðalagasetningarvaldið verði virkt? Það þarf ríka almannahagsmuni. Það þarf í raun að benda á hálfgerðan þjóðarvoða til að bráðabirgðalagavaldið sé notað. Ef tímapressan er ekki meiri en svo að tími sé til að kalla Alþingi saman þá á að gera það. Málið hefði strax verið skárra gagnvart stjórnarskránni og bráðabirgðalagavaldinu ef þing hefði verið kallað saman til að fjalla um málið. En það var ekki gert. Af hverju? Meðal annars vegna þess, held ég, að það hefði kannski reynst erfitt að rökstyðja að svo miklir hagsmunir væru í húfi að það réttlætti allt umstangið við að kalla þingið saman á miðju sumri. Þá er bara gripið til þess að setja bráðabirgðalög.

En það dugir ekki að benda bara á hagsmunina öðrum megin, hæstv. ráðherra, og gleyma hinni hliðinni, öllum hagsmunum annarra sem kann að vera stofnað í voða með bráðabirgðalagasetningu. Hvernig var málið lagt fyrir forseta Íslands? Honum var væntanlega, eins og hér er greint frá í greinargerðinni, talin trú um að það væri þjóðarvoði fyrir dyrum og gríðarlegir útflutningshagsmunir sem mundu tapast. Hverjir voru þeir nákvæmlega? Hverju hefði það breytt þó að þetta hefði beðið haustsins? Voru það 30 millj. kr., 50 millj., 100 millj.? (Landbrh.: Dómstóllinn ...) Ég efast mjög um það. (Landbrh.: Dómstóll.) Dómstóll? Það var enginn dómstóll. Það var ekkert sem ráðherrann þurfti að hafa áhyggjur af. Hann gat vísað til þess að málið hefði verið sent Alþingi, hann hefði gert skyldu sína og það væri þá þjóðin út á við sem yrði að taka það á sig.

Dómstóll. Farast himinn og jörð þó að þessi ESA-dómstóll fengi einhvern tíma eitthvað að gera? Af hverju renna menn alltaf á rassinn og fella allt niður áður en málið kemst til dómstólsins? Það er meiri óskaplega hræðslan við þennan dómstól. Ég verð að segja eins og er að ég bara kaupi þetta ekki, herra forseti. Ég tel að þarna sé staðið linkulega að málum þegar í hlut eiga jafngríðarlega miklir hagsmunir og afdrifarík mál og að færa víglínuna innar að þessu leyti. Þegar náttúra Íslands á í hlut þá er það bara staðreynd að ríkisstjórn Íslands hefur staðið mjög gáleysislega að málum í hverju tilvikinu á fætur öðru. Það hefur verið gert. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að fara með ástarjátningar sínar til handa íslenska villta laxinum. Þó að hann játi honum ást sína af þvílíkum krafti að jafnvel Búkolla fari að verða afbrýðisöm, en þá tegund hefur nú ráðherrann lofað öðrum dýrum meira, þá eru það verkin sem sýna merkin, hæstv. ráðherra.

Ráðherrar eru það sem þeir gera en ekki það sem þeir segja, af því að ráðherrar hafa framkvæmdarvald. Það þýðir ekkert fyrir ráðherra að koma og halda að hann sé bara stikkfrí í málinu af því að hann fari með fallegar ástarjátningar og lofi og prísi sjálfan sig fyrir það hve fögrum orðum hann fari um laxinn.

Ég hlustaði á hæstv. ráðherra í útvarpsviðtali á útmánuðum þar sem þetta mál bar á góma. Þá sagði hann að enginn maður hefði tekið jafndjúpt í árinni og sterkt til orða og hann í þágu íslenska laxins. Það er nefnilega það. En hvað hefur hæstv. ráðherra gert eða látið vera að gera? (Landbrh.: Við höfum ströngustu reglur.) Það er það sem við erum að ræða hér.

Hæstv. ráðherra hefur setið í ríkisstjórn sem leyfði stórfellt þauleldi á laxi af erlendum uppruna í sjókvíum án þess að vart yrði við að hann reyndi að stoppa það. Hann rauf þar með heiðursmannasamkomulag sem í gildi hafði verið í meira en áratug um að sá stofn yrði uppi á þurru landi.

Hvað var sagt við okkur sem þá andæfðum og vildum að farið væri fram með gát? Jú, við vorum borin hörðum sökum: Móti framförum. Það gat nú skeð að vinstri grænir væru á móti framförum eins og venjulega. Það stóð upp úr öðrum hverjum framsóknarmanni ef ekki bara öllum. Þá sögðu þeir að þarna væri vinstri grænum rétt lýst, á móti þessu mikla framfaramáli --- kvíarnar svo öruggar að það mun aldrei neitt sleppa, dúndrandi bisness. Ætla þeir að koma í veg fyrir að Austfirðingar fái atvinnu af þessu?

Síðan hefur nú reyndar gullöldin reynst eitthvað minni en lofað var. Og hvað hefur gerst, hæstv. ráðherra? Verstu martraðirnar hafa því miður ræst. Stórfellt magn af fiski hefur þegar sloppið og gengið upp í a.m.k. þrjár íslenskar laxveiðiár strax á fyrstu vikunum eftir þeir sluppu. Átta stykki eru það víst samkvæmt Austurglugganum, blaði á Austurlandi. (Landbrh.: Átta?) Átta stykki stendur í Austurglugganum. Átta hafa þegar veiðst í uppi íslenskum laxveiðiám, hæstv. ráðherra. Hvað hafa þá margir farið þangað upp, því að ekki hafa þeir veiðst allir? Fyrir hreinar tilviljanir hafa a.m.k. átta fiskar nú þegar verið veiddir í ádrætti eða á stöng og greindir sem eldislaxar, þar af einn sannanlega úr slysinu á Norðfirði. Hversu margir tugir eða hundruð eru þá þegar komnir upp í íslenskar ár, þessar og aðrar, það vitum við ekki. En það er skelfilegt til þess að hugsa að þetta skuli hafa gerst, svona fljótt og í svona miklum mæli. Tölfræðin segir okkur að því miður séu yfirgnæfandi líkur á því, miðað við það magn af fiski sem gengur upp í árnar, að einungis lítið brot af honum sé veitt á þessum síðustu haustdögum sem veiðar stóðu eða ádráttur stóð, að þeir skipti tugum eða kannski hundruðum.

Það er sannarlega, herra forseti, ástæða til að ganga hægt um gleðinnar dyr. Íslendingar þurfa svo sem ekki út fyrir landsteinana til þess að læra af slysum sem fikt við villta náttúru og lífríki getur haft í för með sér. Við getum eiginlega lært alveg nóg af minknum og innflutningi hans í íslenska náttúru, hvers konar stórslys geta orðið ef menn kunna ekki fótum sínum forráð í þessum efnum. Saga annarra landa er vörðuð sambærilegum hlutum. Nýi heimurinn, Eyjaálfa gerði t.d. hroðaleg mistök þegar hún var að byggjast á 17. og 18. og 19. öld. Menn fluttu tegundir frá Evrópu inn í algerlega framandi lífríki Ástralíu og Nýja-Sjálands (Gripið fram í.) kanínur og hvað það nú var, og fengu á sig hroðalegar katastrófur í lífríkinu þar. Kanínuplágan í Ástralíu er auðvitað fræg að endemum.

Ég þekki annað dæmi mjög vel. Það var þegar Nýsjálendingar fluttu inn prúðan þyrnirunna frá Skotlandi, sem ,,gorse`` er kallaður. Hann hegðar sér þannig í skosku loftslagi að þetta er svona prúð og kurteis limgerðisplanta sem vex fallega og hægt, sem hægt er að klippa til og dreifir sér ekki neitt. Þá fannst mönnum upplagt að fara með það til Nýja-Sjálands og fá sér svona limgerði. Hvað gerði svo þessi planta í nýsjálensku loftslagi? Hún varð að einhverju skæðasta illgresi sem nokkurn tíma hefur komið til þess lands og kostar nýsjálenskan landbúnað milljarða á milljarða ofan að halda henni niðri vegna þess að í hinu hlýja og raka loftslagi Nýja-Sjálands þá sleppir hún fram af sér beislinu.

Þetta sýnir mönnum hversu lítið við vitum og (Gripið fram í.) hversu hættulegt allt fikt við lífríkið og náttúruna er. Hver á að njóta vafans? Eitt fyrirtæki út af einhverjum hrognum eða náttúra Íslands, hæstv. ráðherra? Það dugir ekki að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut. Þetta er bara svona. Hér eru menn með stórkostlega alvarlega hluti í höndunum. Það geta orðið slys sem engin leið er að bæta. Hitt er alltaf hægt að bæta, borga þeim frekar peninga. Af hverju sagði ekki ráðherra við fyrirtækið hérna: Ég vil frekar borga ykkur 30 milljónir. Haldið þið bara að ykkur höndum, við gerum þetta ekki svona. Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi hinum megin.

Nei, forseti Íslands er sannfærður um það að himinn og jörð séu að farast, landið sé að fara á hausinn nema að sett séu bráðabirgðalög á miðju sumri til að hægt sé að flytja út þessi hrogn.

Síðan vil ég segja vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um tiltekið heiðursmannasamkomulag, sem réttilega er rifjað upp að gengið var frá í október 1988. Ég man það mjög vel því að mér var síðan kynnt það í beinu framhaldi. Eftir því var farið um langt árabil og það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem ég frétti fyrst af því eða fékk grunsemdir um að það væri eitthvað farið að leka, að lax af norskum stofni væri kominn út í kvíar á einum eða jafnvel tveimur stöðum við landið. Það þóttu mér auðvitað mjög slæm tíðindi.

En það voru þó hreinir smámunir hjá þeim ósköpum sem gerðust þegar ríkisstjórnin ákvað að veita laxeldisfyrirtækjum eystra starfsleyfi fyrir þauleldi á laxi í gríðarlegum mæli, í raun og veru stærstu stöðvar sem menn hafa áformað að reisa í heiminum, nema ef vera kannski skyldi að í Chile fyndust einhverjar hliðstæður. Þetta eru stærri einingar heldur en Norðmenn hafa farið út í að leyfa, 8 þús. tonn á einum stað. Það er nú ekkert smáræði að ala 8 þús. tonn af fiski á einum bletti inni í einum firði með því gríðarlega magni af fóðri, þeim fjölda einstaklinga sem þar eiga í hlut og öllu því álagi sem fylgir á alla skapaða hluti.

Mönnum lá svo lifandis mikið á að þar var ekki einu sinni hægt að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það var ekki einu sinni hægt að takast á um grundvallarspurningar um hvort leyfa ætti eldi á erlendum stofni og fá botn í þær fyrst. Það var ekki einu sinni farið í að ræða hvort gera ætti að skilyrði að laxinn yrði ófrjór. Það var skautað fram hjá þessu öllu af því að það voru svo miklir atvinnuhagsmunir í húfi. Það lá svo mikið á að drífa þetta bara allt í gang. Þeir sem mæltu varnaðarorð, þeir voru óvinirnir.

[17:15]

Ei veldur sá sem varar, hæstv. ráðherra, segir gamalt máltæki og á það vel við hér. En það átti að fara að kjósa og mikið lá við að sannfæra framsóknarmenn á Austurlandi um að þeir ættu að skila sér heim í réttina og kjósa eins og venjulega og allt var fyrir þá gert.

Herra forseti. Svo verð ég að segja að mig undrar að menn skuli ekki hafa lært meira af óförum laxeldisins hér á fyrri árum og að menn skuli ætla út í þetta á þennan hátt sem raun ber vitni og í svona stórum stíl. Ég er mjög undrandi á því. Auðvitað verða þau fyrirtæki sem eru að hætta sínum fjármunum þarna að ráða því. En ég er mjög hissa á því að menn sem telja sig klóka í bisness skuli halda að það sé svona mikil framtíð í því að við Íslendingar reynum að elta Norðmenn, Færeyinga, Skota og Chilebúa í laxeldi þegar við erum orðnir hvort sem er 10--20 árum á eftir þeim og ætla að fara að ala lax í stórum stíl með þessum hætti, sem er í raun orðinn að kjúklingi sjávarins. Það er löngu liðin tíð að eldislax sé lúxusvara á háu verði. Þetta er orðið að kjúklingi, verksmiðjuframleitt fóður á lágu verði. Maður hefði heldur haldið að framtíðin lægi í að reyna að vera í fararbroddi á eldi t.d. sjávarfiska eins og lúðu, sandhverfu, hlýra eða annarra slíkra tegunda sem við Íslendingar hefðum möguleika á að vera með ef athyglinni væri beint að því. Nei, en það er eins og allt ætli að verða okkur að ógæfu í þessum efnum. Lúðuseiðin eru flutt út og þau eru undirstaða eldis í öðrum löndum. En það er ekki að verða sú uppbygging hér í landi sem maður vonaðist til að yrði í kjölfar þess að Íslendingar hafa náð glæsilegum árangri í að klekja út lúðuseiðum. Þess í stað virðist öll orkan ætla að fara í að reyna laxeldi í stórum stíl. Og af hverju þarf það að vera í stórum stíl? Af hverju þarf 8 þús. tonn í stöð? Jú, það er vegna þess að verðbilið er orðið svo lítið að til þess að svona rekstur gangi þá þarf magnið að vera svona ofboðslegt. Það er af því að þetta er ekki lengur dýr lúxusvara. Þetta er kjúklingur og þá þarf bara að hauga út nógu ofboðslegu magni í voninni um að einhverjar krónur verði afgangs af hverju kílói og þá þurfa tonnin eða þúsundirnar af tonnunum að vera svona mörg til þess að þetta sé rekstrarhæf eining.

Er þetta þá mjög féleg framtíðarsýn, að ekki sé rekstrarafkoma í þessu nema við í raun leyfum allt, gríðarlega stórar einingar og það úti í sjó og stofn af erlendum uppruna? Það er það sem hæstv. ráðherra er að segja. Það er verið að gera þetta akkúrat svona því að annars stendur þetta ekki undir sér.

Þá er auðvitað spurningin: Á þá nokkuð að vera að standa í þessu? Ég held að svarið sé nei. Ef þetta er svona lélegur bisness að það þarf að leyfa þetta þauleldi í stórum stíl úti í sjó þá efast ég um að það borgi sig að standa í þessu og við hefðum frekar átt að reyna að beina kröftum manna í einhvern annan farveg sem væri líklegri til að skila árangri til lengri tíma litið.

Ef þetta snerist bara um að einhverjir stórir kallar töpuðu peningum þá mættu þeir það út af fyrir sig mín vegna, enda alla vega fengið sumt af þeim aurum. En málið snýst bara ekki um það. Það er aukaatriði í málinu. Þetta snýst um náttúru Íslands og gagnvart henni eigum við ekki að taka áhættu.