Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 17:55:25 (431)

2003-10-09 17:55:25# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerir mikið úr setningu bráðabirgðalaganna. Ég veit að hv. þm. veit hvað þjóðréttarleg skuldbinding er. Hann veit líka að þingmál sem liggur hefur ekki verið hafnað. Hann veit að ekki hefur tekist að vinna það. Hann veit líka að oft í alþjóðlegu starfi þegar þingmál er komið fyrir þingið þá segja menn jú að menn ætli að standa við sína skuldbindingu og þar með kemst friður á. Það gerðist ekki í sumar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Og ég veit að hv. þm., sem farið hefur til Brussel og þekkir þetta allt saman eins og fingurna á sér og miklu betur en ég, veit að Eftirlitsstofnun EFTA frestaði frekari meðferð brotamálsins sem svo var kallað á hendur Íslandi af því að bráðabirgðalögin voru sett. Hann veit líka að nú stefnir ESA að því að taka formlega ákvörðun um að Ísland sé laust við fisksjúkdóma, að taka þurfi ákvörðun um að við séum laus við fisksjúkdóma, eitt hreinasta land í Evrópu.

Hann veit líka hvað gerist förum við fyrir EFTA-dómstólinn og virði EFTA-ríki ekki niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Það mundi hafa víðtækar afleiðingar fyrir útflutning á íslenskum vörum til Evrópusambandsins. Voru það ekki þeir hagsmunir sem líka var verið að verja, að við værum ekki í skammarkróknum og að við brytum ekki samningsgjörð sem við gerðum með EES-samningnum?

Við stóðum því frammi fyrir því að verða annars flokks land hvað varðar heilbrigði í fiskeldi á Íslandi. Við stóðum líka frammi fyrir því að verða annars flokks land í hugum Evrópubúa af því að við stóðum ekki við samning sem við gerðum. Ég lærði í æsku sem barn að orð skuli standa, hvað þá blekið úr pennanum.

Hér erum við að fylgja því eftir af þeirri vörn og því öryggi sem við getum til þess að verja íslenska hagsmuni.