Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:01:14 (435)

2003-10-09 18:01:14# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir gagnmerka ræðu og ákaflega þarfa upprifjun á þeim breytingum sem gerðar voru á bráðabirgðalagavaldinu, setningarvaldinu, 1990--1991 (Landbrh.: Hvers vegna afgreiddi sjútvn. sitt mál?) --- ákaflega þarfa upprifjun. Það hefur greinilega komið illa við hæstv. landbrh. að þetta væri rifjað upp.

Ég er algerlega sammála þeim rökum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson færði fyrir því, eins og ég reyndar sagði í ræðu minni í framhjáhlaupi, að bráðabirgðalagasetningarvaldið hafi þarna verið teygt út yfir öll takmörk. Ef svo brýna nauðsyn bar til að setja lög um þetta þá átti auðvitað að kalla þingið saman í sumar.

Það er ljóst að sameiginlegur skilningur allra á sínum tíma, þegar þessar breytingar voru gerðar 1990--1991, var að þegar fært er að kalla þingið skuli það gert, þurfi að setja lög. Ef einhver neyðaratvik koma upp og því verður ekki við komið að kalla saman þingið, sem situr og hefur fullt umboð en hefur gert hlé á fundum sínum, þá er þetta vald til staðar. Annars á ekki að nota það. Það er algerlega ljóst. Sá grundvallarmunur er þarna á orðinn að þingið er að störfum en hefur gert hlé á fundum sínum en er ekki eins og áður var rofið og sent heim við þinglausnir að vori.

Þetta er það sem greinilega hefur farið fram hjá hæstv. ráðherra í sumar. Ég tel að af þessu tilefni sé óhjákvæmilegt að formenn þingflokka hittist og fari yfir þetta mál, því ella held ég að sú samstaða sem um þetta tókst á sínum tíma kunni að fara út um víðan völl, úr því að svo óhönduglega hefur tekist til. Kannski verður hægt að líta á þetta jákvæðum augum, sem slys og vonandi eitthvað sem gerist aldrei aftur.

Það var reyndar athyglisvert að hæstv. ráðherra reyndi ekki að verja beitingu bráðabirgðalagavaldsins í andsvörum áðan. Hann fór bara út í þrætur um efnisþætti málsins.