Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:04:07 (436)

2003-10-09 18:04:07# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Eins og síðasti ræðumaður þá fagna ég sérstaklega orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan. Hann fór á vandaðan og málefnalegan hátt yfir hina nýju hugsun um bráðabirgðalög. Það var fróðlegt að heyra andsvör hæstv. landbrh. við ræðu þingmannsins. Hæstv. landbrh. heldur því fram að nauðsyn hafi borið til að setja þessi lög í sumar. Nú ætla ég út af fyrir sig ekki að ræða það við hann hér, spurningin er auðvitað ekki sú, heldur um hvað mælti á móti því að kalla Alþingi saman til að setja þau lög sem hæstv. landbrh. taldi nauðsynlegt að setja. Það er reglan í þingræðisríkjum að það sé gert.

Ekki hefur ástæðan verið sú að þingið hafi ekki verið að störfum því formlega var það svo. Fundum þess hafði aðeins verið frestað. Ekki var ástæðan sú að hér væru þeir voveiflegu atburðir á ferðinni sem torvelduðu þinginu að koma saman. Hér var ósköp einfaldlega venjulegt íslenskt sumar og auðvelt að kalla þingið saman. Tiltölulega auðvelt hefði verið að kalla þingið saman með skömmum fyrirvara, þeim fyrirvara sem hefði þurft í þessu máli. Engar ástæðar eru sjáanlegar gegn því að kalla þingið saman um þetta brýna nauðsynjamál sem hæstv. landbrh. telur að hafi verið á ferðinni.

Í andsvörum ráðherra við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson kom hins vegar í ljós hvers vegna þetta var ekki gert. Komið hafði fram í umræðum um frv. sem hæstv. landbrh. lagði fram 6. mars á vorþingi að um það væru deildar meiningar. Þingmenn töldu að þeir þyrftu að taka sér tíma til að fara í gegnum þetta frv. og skoða á því ýmsar hliðar. Þess vegna var það ekki samþykkt og varð hér úti við þingfrestun. Hin brýna ástæða bráðabirgðalaganna virðist hafa verið sú að hæstv. landbrh. hafi verið hræddur um að frv. yrði ekki samþykkt ef þing yrði kallað saman. Eða að það lenti í þeim skakkaföllum í meðförum þingsins að ekki væri óhætt að fela það þinginu.

Ef þetta er eitthvað nálægt sannleikanum, ef þessi ósköp eru afleiðing af upplýsingum um stöðu mála á þinginu á sínum tíma og hinum öra vilja ráðherrans til að koma málinu fram í sumar án þess að kalla þing saman, þá er túlkunin á hinni brýnu nauðsyn sem þarf til að setja bráðabirgðalög satt að segja komin út um allar þorpagrundir og út í móa.

Ég tek undir þau orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að þetta þarf sérstaklega að ræða, kannski einmitt á þeim vettvangi sem á sínum tíma var notaður til umræðu og tillögugerðar í þessu mikilvæga máli.

Auðvitað vekur frv. sem hér liggur fyrir upp hugleiðingar og umræður eins og hér hafa farið fram um þetta mál almennt. Þegar ákveðið var að fara út í þessa nýju atvinnugrein, með stuðningi hæstv. landbrh., var tekin feikileg áhætta eins og áður hefur verið gert í Íslandssögunni með hliðstæðum innflutningi þar sem menn hafa miklað fyrir sér þann árangur sem nást kynni. Skemmst er að minnast minkaræktarinnar fyrr og síðar í því efni. Sá er þó munur á, án þess að bera saman hættuna af þessum dýrum og skaðann sem þau valda lífríkinu, að minkurinn hefur ekki blandast íslenskum tegundum eins og hinn nýi nytjastofn hæstv. landbrh. við landið kynni hins vegar að gera.

Slysið sem varð í Norðfirði í sumar er þess eðlis að í raun ættum við að taka okkur tíma í að ræða það nánar en við höfum gert. Mér finnst að hæstv. landbrh. ætti að hafa haft frumkvæði að því að flytja þingmönnum á hinu háa Alþingi skýrslu um hvernig þetta slys varð, hverjar reglur giltu um þann viðburð sem leiddi til slyssins og hvaða lærdóm landbrn., skrifstofa hæstv. landbrh., og þeir sem standa í þessum atvinnurekstri hafa af því dregið. Hvaða reglurammi er þá utan um þann feril sem slysinu olli?

Hæstv. landbrh. heldur því fram að hér séu ströngustu reglur í heimi um þetta eldi. Ég skal ekki draga það í efa. Ég hef ekki kynnt mér þær reglur sem gilda annars staðar. Þær virðast nokkuð strangar. Í reglugerð hæstv. ráðherra frá febrúar 2000 um flutning og sleppingar eru ákvæði sem gilda fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar, með leyfi forseta:

,,Við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skal miða við, að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði sl. 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skal fjarlægðin vera 15 km, nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar, má þá stytta fjarlægðina niður í 5 km. Vegalengd milli sjókvía-, strandeldis- og hafbeitarstöðva innbyrðis skal ekki vera minni en 2 km.``

Þar að auki hefur ráðherra, í ágætri reglugerð frá mars 2001, auglýst sérstök friðunarsvæði þar sem eldi frjórra laxa í sjókvíum er óheimilt. Þau ná yfir stórt svæði eins og ráðherra hæstv. sjálfur hefur dregið fram í umræðum hér á þinginu sem fram fóru í formi óundirbúinna fyrirspurna. Þingmönnum gafst þá ekki almennt kostur á að skipta sér af því máli öðruvísi en með eyrunum. En það er rétt. Friðunarsvæðið er allur Faxaflói, allur Breiðafjörður. Það er Húnaflói og Skagafjörður. Það er Skjálfandi og síðan svæðið frá Hraunhafnartanga að Fonti og að Glettinganesi. Þetta er væntanlega gert vegna þess að menn vilja ekki að lax af þessu tagi, frjór eldislax af öðrum stofni en hér er hagvanur, sleppi neins staðar í ár.

Ströngustu reglur í heimi virðast hafa brugðist í slysinu í Norðfirði. Ströngustu reglur í heimi gerðu nefnilega ekki ráð fyrir að laxinn færi úr sjókvíum sínum og hafbeitarstöðvum. Engar reglur eru finnanlegar í þessum tveimur reglugerðum eða öðru regluverki ráðuneytisins. Þær eru a.m.k. ekki tiltækar mér eða heimildarmönnum mínum í stofnunum landbrn. Enn sé ég ekki að neinar reglur hafi verið settar eða séu í gildi um sláturaðstöðu í eldinu nema þær upplýsingar sem ráðherra hæstv. hefur flutt í fjölmiðlum og reyndar hér á þinginu líka, að menn hafi náð einhvers konar samkomulagi um að hafa sláturkvíarnar eða flutningskvíarnar ekki í höfnunum heldur dæla fiskinum á land. Það er von að maður spyrji: Bíddu nú við, dæla honum á land --- samkvæmt hvaða reglum er það? Hver er tryggingin fyrir því að þegar fiski er dælt á land þá sleppi hann ekki í sjó?

Reynslan með minkinn er sú að þrátt fyrir fyrirheit, loforð og heitstrengingar slapp minkur, bæði í fyrra skiptið sem minkaeldi hófst á landinu og líka í síðara skiptið sem það var leyft. Það sem hefur gerst með minkinn, af því að hann verður ræddur seinna í vetur, er að hann fékk í raun aldrei að jafna sig sem íslenskt rándýr, sem hefði þá kannski verið einhver leið með það kvikindi. --- Hér er enn eitt dýrið sem hæstv. landbrh. hefur að vísu ekki vald á, fluga sem skríður hér á hendi mér og er fagurt kvikindi. --- En minkurinn varð fyrir sífelldri blöndun af hinum nýju eldisstofnum. Þannig að í raun er fordæmingin á honum þannig að maðurinn ber þar alla sök, bæði fram og aftur. --- Ég veit nú ekki hvaða fluga þetta er en flugur í þjóðsögum voru iðulega sendar af æðri mönnum. Ég veit ekki hvort hæstv. landbrh. hefur sent mér þessa.

[18:15]

Ég vil svo segja þetta: Það er auðvitað þannig að menn virðast hafa ráðist í þetta laxeldi með nokkrum áhuga sem okkur er ekki ókunnur í íslenskri atvinnusögu. Tveir kurteisir menn skrifuðu grein í sumar. Það var varnargrein fyrir eldismann sem hafði verið borinn þungum sökum. Ég ætla ekki að fara út í það. Þetta voru þeir Sigurður Guðjónsson og Sigurður Már Einarsson sem menn þekkja sem grandvara vísindamenn og þeir taka kurteislega til orða. Þeir voru og eru hógværir, m.a. vegna þess að þeir hafa að sameiginlegum yfirmanni hæstv. landbrh.

Þeir segja þetta í Morgunblaðinu 7. september, með leyfi forseta:

,,Búið er að leyfa ákveðið eldi. Ekki ætti að bæta við leyfum fyrr en reynsla er fengin af núverandi eldi. Auka þarf þekkingu okkar á ýmsum þáttum er lúta að eldinu. Þar skortir ýmsar grunnrannsóknir. Bæta þarf m.a. þekkingu á farleiðum lax í kringum landið, erfðafræði íslenskra laxastofna og þróun á notkun geldstofna í eldinu.``

Þetta er dómur þeirra Sigurðar Guðjónssonar og Sigurðar Más Einarssonar, sem ættu að vera hæstv. landbrh. kunnir, um stöðu rannsókna í kringum þetta eldi sem hæstv. landbrh. hefur leyft. Þeir segja að grunnrannsóknir skorti. Á hvaða sviðum skortir grunnrannsóknir?

Í fyrsta lagi vitum við lítið um farleiðir laxa í kringum landið. Í öðru lagi vitum við ekki nóg um erfðafræði íslenskra laxastofna og þar með væntanlega möguleika þeirra til að verjast blöndun. Við vitum í þriðja lagi ekki mikið um notkun geldstofna í eldinu, þ.e. til hvers það muni leiða. En það hef ég fyrir satt frá kunningja mínum sem lengi hefur hugleitt eldi og kynþroska að geldfiskur sé að ýmsu leyti heppilegri eldisstofn en hinn fiskurinn. Þrátt fyrir þetta hefur hæstv. landbrh. barist fyrir því að þessari atvinnugrein sé komið af stað og hún efld.

Um farleiðir lax, sem við vitum ekki mikið um, hefur hæstv. landrh. sett reglugerð sem ég las áðan, eina reglugerð og eina auglýsingu, þar sem hæstv. landbrh. og ráðgjöfum hans virðist vera nokkuð ljóst um farleiðir laxa og telja að þeir fari 5--15 km úr hafbeitar- og sjókvíastöðvum sínum ef þeir sleppa út. Þá er rétt að spyrja hæstv. landbrh., hæstv. forseti, að því hvað hann telji langt á milli nokkurra staða á Austfjörðum, þ.e. á milli Norðfjarðar annars vegar og Selár og Hofsár í Vopnafirði og hins vegar milli Norðfjarðar og Breiðdalsár. Ég veit þetta ekki. Þó var ég með reglustiku minni að reyna að mæla þetta á landakorti, þ.e. kortabók sem hið ágæta bókaforlag Mál og menning gaf út fyrir nokkrum árum og er prýðileg til slíkra nota. Það var einkaframtak sem á sínum tíma þurfti að berjast nokkuð gegn gömlu ríkisfyrirtæki sem taldi sig hafa einokun á þessum upplýsingum. Þessi reglustikureikningur minn, sem er nú ekki mjög kunnugur á Austfjörðum, leiddi í ljós að meira en 5--15 km eru á milli þessara staða sem ég nefndi.

Á milli Breiðdalsár og Norðfjarðar sýndust mér vera 50--60 km eftir því hvernig reiknað væri. Milli Vopnafjarðar og Norðfjarðar sýndust mér vera um það bil 100--110 km. Þessa leið hafa þeir laxar sjö farið sem nú hafa náðst í þessum ám. Sex þeirra eru taldir vera úr Norðfirði með nokkurri vissu og einn þeirra er alveg örugglega þaðan vegna örmerkinganna.

Þetta er fróðlegt að virða fyrir sér í ljósi ummæla tvímenninganna um grunnrannsóknir á farleiðum laxa og í ljósi þeirra reglugerða um 5 km og 15 km sem hæstv. landbrh. hefur sett. Í auglýsingunni virðist hins vegar gert ráð fyrir að laxar fari nokkuð víðar um og geti fleygt sér á einhverjum vaxtarstigum yfir heila flóa og víðsævi mikið í fjörðum.

Hæstv. forseti. Ég sé sem sagt ekki að hæstv. landbrh. hafi gert neinar ráðstafanir til þess að koma í framtíðinni í veg fyrir aulaleg slys af því tagi sem urðu í Norðfirði og sem orðið geta, að mér sýnist, við annars konar aðferðir til að flytja lax frá uppeldisstað sínum og í sláturstöð. Ég óska eftir því í tilefni þessarar umræðu um bráðabirgðalög um málið að hæstv. landbrh. svari mér ekki út úr um þetta heldur tjái þingheimi það skýrt og greinilega hvað hann og skrifstofa hans, landbrn., hafa gert til þess að koma í veg fyrir slys eins og þarna urðu og geta orðið.

Ég vil svo segja þetta að lokum, hæstv. forseti: Þetta er mál sem landbrh. flytur og þessi málaflokkur er vistaður í landbrn. Ég ætla ekki að ræða um sögu þess ráðuneytis sem mörgum þykir hafa einkennst af því að einstakir hagsmunaaðilar hafi ráðið þar meiru en eðlilegt er í stofnun almannavaldsins. Ég vil bara segja þetta: Þetta er ekki landbúnaðarmál. Þetta er auðvitað mál sem snertir alla Íslendinga og áhugamenn um íslenska náttúru. (Gripið fram í.) Ja, þetta er landbúnaðarmál, fyrirgefið. Þetta er auðvitað landbúnaðarmál að því leyti sem það snertir þessa atvinnugrein sem þarna er um að ræða. En þetta er fyrst og fremst umhverfismál. Þetta er mjög mikilvægt umhverfismál sem hér er um vélað og ég tel að ef þessu máli verður vísað yfir höfuð til 2. umr. sem ég dreg í efa, sérstaklega eftir hina ágætu ræðu Kristins H. Gunnarssonar --- mér sýnist að viðbrögð þingsins gætu orðið þau að láta málið ekki halda áfram --- þá hljóti það að koma líka til kasta umhvn., hæstv. forseti, og mun ég e.t.v. ítreka þann vilja minn eða það álit mitt síðar.