Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:23:22 (437)

2003-10-09 18:23:22# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil um margt þakka hv. þm. málefnalega ræðu. Hann kom í ræðu sinni inn á mörg atriði sem skipta máli. Hann ræddi um þær reglugerðir sem settar hafa verið um eldisfiska og kvíar við Ísland.

Nú höfum við einungis notað þennan stofn sem hér hefur verið í 20 ár, þennan norska stofn sem við notum við fiskeldið, og hann má einungis fara ofan í þessa örfáu firði sem hv. þm. sjálfur rakti hér og opnir eru. Annars staðar fer þessi fiskur hvergi niður, hvorki frjór né geldur. Hann fer hvergi annars staðar niður. Það liggur fyrir.

En það er hárrétt hjá hv. þm. að ég held að sú reglugerð sem hann vitnaði til og rakti skipti miklu máli hvað öryggi ánna varðar. Ég vil því þakka hv. þm. fyrir það af því að ég held að það skipti framtíðina miklu máli.

En eldisfiskurinn, sem sé þessi norsk-íslenski stofn sem við höfum verið að nota, er hér einungis ofan í Austfjörðunum. Hann hefur farið þar niður og ekki hafa orðið slys af honum. Ég tek undir með hv. þm., ég hef kallað það aulalegt slys sem varð á Norðfirði þegar þar sluppu út 3.000 fiskar --- og vakti athygli hér fyrr í dag á því að reglum verður breytt. Sláturfiskur fer beint á land, ekki í kví í sjónum. Fiskeldismenn hafa sjálfir beðið um það og lýst því yfir að þeir muni aldrei láta landa sláturfiski í kví við bryggjuna heldur dæla fiskinum í örugga aðstöðu uppi á þurru landi.