Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:25:25 (438)

2003-10-09 18:25:25# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka vinsamlegan tón hæstv. landbrh. í svörum sínum í þessu efni en hlýt að vekja athygli forseta og þingheims á því að svörin voru engin. Svörin voru þau að fiskeldismenn hafi lýst yfir tilteknum vilja. Hæstv. landbrh. hefur ekki sett reglugerð eða gefið út auglýsingu þar sem tekið er á því vandamáli sem þarna var um að ræða.

Svo verður að segja að hvorki reglugerðin né auglýsingin hafa hindrað það að lax hafi farið úr Norðfirði og í Selá og Hofsá í Vopnafirði, sem eftir því sem ég veit best, þó að ég sé nú ekki mikill veiðimaður sjálfur, eru einar fengsælustu og vinsælustu ár á Austurlandi og saman jafnandi við bestu ár á landinu. Veiðin þar var 1.100 og 1.600 laxar í Selá árin 2001 og 2002 og 900 og 1.800 í Hofsá. Breiðdalsá er á í örum vexti vegna þess að menn hafa reynt að byggja hana upp. Það sem nú er um að ræða er það að þessar ár kynnu að vera í hættu. Þess vegna spyr maður auðvitað þegar farleiðir laxa sjást nú í raun í þessar ár: Vantaði ekki eitthvað í auglýsinguna frá því í maí 2000 eða þar um bil?