Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:29:52 (441)

2003-10-09 18:29:52# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Svona bara rétt við lok þessarar umræðu langar mig til að nefna hér tvö atriði sem eðlilegt er að landbn. fari sérstaklega vel yfir þegar þetta mál kemur til hennar kasta.

Í fyrsta lagi þarf að skoða hér tryggingarþátt málsins, þ.e. hvaða möguleikar eru á því að laxeldisfyrirtækin geti tekið tryggingar sem á einhvern hátt samkvæmt einhvers konar tryggingarlögmálum og skilmálum gætu bætt þriðja aðila tjón sem verður á laxeldi. Það er mjög nauðsynlegt að farið verði gaumgæfilega yfir þetta því að ef þetta er lítið mál eins og hæstv. landbrh. hefur verið að reyna að telja okkur trú um, að þegar laxinn sleppi úr kvíum deyi hann bara, hljóta þessi fyrirtæki að geta keypt sér mjög ódýrar tryggingar þannig að það sé þá nokkuð ljóst að svona lax sem sleppur úr kvíum valdi engum skaða. Ef það er hins vegar ekki jafnljóst og hæstv. landbrh. vill vera láta verður hér um afar dýrar og kostnaðarsamar tryggingar að ræða.

Mér segir svo hugur að jafnvel ekkert tryggingafyrirtæki væri tilbúið til að tryggja fyrirtæki gegn svo alvarlegu tjóni sem sleppingar laxfiska gætu valdið þriðja aðila. Þetta er mjög alvarlegt mál og verður að skoða. Hæstv. ráðherra byggir á spám og vonum en við skulum fara þannig ofan í málið í nefndinni að það verði byggt á raunverulegum hlutum; hvaða tryggingafélag er tilbúið til að tryggja laxeldisfyrirtæki gegn tjóni sem þriðji aðili, t.d. veiðiréttareigendur, verður fyrir af völdum eldislax.

Hitt atriðið sem ég held að landbn. verði að fara gaumgæfilega yfir er lögfræðilegt álitamál sem varðar spurninguna um það hver hafi í raun yfirumsjón á svæðum sem þessar laxeldiskvíar eru settar niður á. Nú er ég að tala um svæðin utan netlaga, svæði sem eru meira en 115 m fyrir utan stórstraumsfjöruborð.

Í Veiðimanninum, málgagni stangveiðimanna, 2. tbl. árið 2002, birtist afar athyglisvert viðtal við Óttar Yngvason hæstaréttarlögmann sem er annar eigenda Haffjarðarár. Mig langar til að vitna til þessa viðtals með leyfi forseta en þar segir Óttar um kvíar í Klettsvík og Mjóafirði:

,,Þar með eru kvíarnar komnar á svæði ríkisins og eru utan lögsögu viðkomandi sveitarfélaga eða einkaaðila sem kunna að eiga land að sjó. Af því að þetta er sjór þá finnst mönnum þetta e.t.v. í lagi en ég er hræddur um að annað væri upp á teningnum ef um land væri að ræða. Samkvæmt stjórnarskránni þarf hér að koma til sérstakt samþykki um afnotarétt hafsins sem sennilega verður að byggjast á lögum fyrir hvert tilvik fyrir sig.``

Þetta atriði þarf landbn. líka að athuga sérstaklega því kannski eru þessar eldisstöðvar sem eru með kvíar sínar utan netlaga frekar í órétti en íslenska þjóðin sem á þá sameiginlegu auðlind sem býr í hafinu, alveg eins og við eigum sameiginlegu auðlindirnar sem búa í landinu. Kannski erum við ekki búin að gefa þessu leyfi, jafnvel þótt einhver lög hafi verið sett. Þetta þarf að skoða mjög nákvæmlega.

Ég verð að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að hún hefur verið afar fróðleg, umræðan sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon hófu hér máls á varðandi setningu bráðabirgðalagaákvæðisins í stjórnarskrána og breytinguna á stjórnarskránni á sínum tíma. Það þarf auðvitað að kanna þetta rækilega og skoða hvaða sjónarmið lágu þarna að baki og kannski voru ekki ríkir almannahagsmunir fyrir setningu bráðabirgðalaganna. Maður spyr sig hvort forseti Íslands hafi verið leiddur í einhverja villu þegar hann var látinn undirrita þessi bráðabirgðalög? Það eru afar alvarlegar ásakanir ef það er rétt en það verður a.m.k. að taka það mál mjög til skoðunar núna á næstu dögum þegar þingnefnd hefur þetta mál til umfjöllunar.

Hér í lokin, virðulegi forseti, langar mig til að halda því fram að það verði að kalla eftir upplýsingum úr landbrn. um það hvernig unnið var að því að fá framlengda undanþáguna sem heimild er fyrir í tilskipuninni. Var lögð ríkuleg áhersla á samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika í þeirri vinnu? Voru skoðaðar yfirlýsingar ráðherra Evrópuráðsins sem hafa gefið yfirlýsingar um að það beri að tryggja að náttúrulegum dýrastofnum sé viðhaldið, það megi ekkert raska ró dýrastofna sem séu í hættu? Var farið það vel yfir þessi mál á Evrópuvettvangi að það sé algerlega tryggt að undanþáguheimildin hafi ekki verið leyfð áfram, framlenging á henni hafi alls ekki komið til greina?

Ég brýni landbn. í þessum efnum og treysti því að hún fari nákvæmlega yfir þau vinnubrögð sem landbrn. viðhafði. Mig grunar nefnilega að landbrn. hafi ekki unnið heimavinnuna sína í þessum efnum. Allar yfirlýsingar ráðherranna sem ég hef lesið sýna mér að þetta sé fólk sem hafi fullan skilning á viðkvæmu lífríki Íslands, vilji tryggja það að ekki verði erfðablöndun á stofnum eins og íslenska laxastofninum. Þar af leiðandi tel ég að við hefðum átt fullan rétt á framlengingu undanþáguákvæðisins.

Þetta er bara svona brýningaratriði í lokin fyrir landbúnaðarnefndina. Ég treysti því að málið verði unnið af fagmennsku og trúmennsku í henni og tel reyndar líka eðlilegt að umhverfisþátturinn verði skoðaður þar algjörlega ofan í kjölinn. Kannski verður rétt að senda þetta mál til umsagnar umhvn., landbn. skoðar það kannski í sínum ranni. En í öllu falli er hér um gífurlega hagsmuni að ræða og það má ekki ana hér út í óvissuna sem mér sýnist að hæstv. landbrh. hafi gert með setningu bráðabirgðalaganna.