Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:09:01 (448)

2003-10-13 15:09:01# 130. lþ. 9.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Frú forseti. Málið sem hér eru greidd atkvæði um er þannig til komið að hæstv. ríkisstjórn sá ástæðu til þess að setja bráðabirgðalög í sumar um lax- og silungsveiði. Ég vil geta þess nú við atkvæðagreiðslu, strax við 1. umr., að þingflokkur Samfylkingarinnar er þeirrar skoðunar að skilyrði stjórnarskrárinnar fyrir setningu bráðabirgðalaga hafi ekki verið uppfyllt í tengslum við þetta mál, enga brýna nauðsyn hafi borið til þess að setja bráðabirgðalög um þetta mál, enda er það svo, frú forseti, að það orkar meira að segja tvímælis yfirleitt að nota bráðabirgðalagaákvæðið í stjórnarskránni nú á þeim tímum sem Alþingi situr allt árið og ekkert er því til fyrirstöðu að kalla þing saman ef nauðsynlegt er talið að setja lög um einhver slík mál.

Ég fullyrði það, frú forseti, að stjórnarskrárgjafinn hafi ekki haft í huga tilvik á borð við þetta þegar fjallað er um brýna nauðsyn í 28. gr. stjórnarskrárinnar og vil því geta þess hér í upphafi að þetta er okkar afstaða. Við munum hins vegar ekki koma í veg fyrir að þingleg meðferð málsins (Forseti hringir.) geti farið fram og munum því styðja það að málið fari til 2. umr. En við munum tryggja það að málið fái ítarlega umræðu í nefnd.