Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:13:34 (450)

2003-10-13 15:13:34# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þar sem fyrir liggur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að byggja áfram á núverandi aflamarkskerfi og þar sem frjálst framsal aflaheimilda fylgir slíku kerfi er meira en líklegt eins og dæmin sanna að atvinnumál og atvinnuöryggi byggða, smárra og nú jafnvel þeirra stærri, verði áfram í mikilli óvissu. Með því að óvissan er innbyggð í núverandi sjávarútvegsstefnu og ríkisstjórnin hyggst ekki breyta um stefnu næstu fjögur árin vil ég spyrja hæstv. iðnrh., ráðherra byggðamála: Hvernig verður leitast við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða með öðrum hætti en víðtækari veiðirétti eða byggðakvótum?

Allir landsmenn sem á annað borð fylgjast með umræðu og atburðum í þjóðfélagi okkar vita að víða á landsbyggðinni er mikil óvissa um hvort fólk hafi áfram atvinnu í hefðbundnum greinum, landbúnaði og sjávarútvegi.

Sá sem hér talar hefur mikla trú á því að það verði okkur sem þjóð mikils virði á komandi árum og áratugum að halda landinu að mestu í byggð og nýta af staðkunnugu fólki náttúrugæði til sjávar og sveita. Einnig er ljóst að enginn er betur til þess fallinn en sá sem þekkir staðhætti og sögu byggðar og hefur þar lengi búið að miðla þeirri reynslu og þekkingu áfram til þeirra sem landkosti vilja nýta.

[15:15]

Í stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 eru fimm meginmarkmið sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

b. Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.

c. Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.

d. Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.

e. Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.``

Nú er tímabilið að verða hálfnað. Þess vegna er spurt eftirfarandi spurninga sem vonast er til að ráðherra byggðamála svari auk þeirrar sem áður var borin upp í máli mínu:

Er hæstvirtur ráðherra byggðamála með áætlanir um aðgerðir til styrktar atvinnu í sjávarbyggðum sem tengjast frekari úrvinnslu eða nýjum iðnaði úr sjávarfangi? Er einhver önnur nýsköpun sem tengist staðsetningu byggða við ströndina sem ráðherra byggðamála horfir til varðandi eflingu þeirra byggða og betri hag fólksins sem þar býr?

Liggja fyrir tillögur í ráðuneytinu um hvar bættar samgöngur milli byggða á afmörkuðu landsvæði, t.d. Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austfjörðum, kæmu að mestu gagni til eflingar byggð, atvinnu, menntun og þjónustu?

Mun ráðherra byggðamála efla atvinnuþróunarfélögin, t.d. með tillögum að auknum fjárveitingum til þeirra, en þær hafa verið að mestu óbreyttar síðan 1997?

Hvaða tillögur liggja fyrir um eflingu nýsköpunar og atvinnuþróunar í minni sjávarbyggðum, t.d. með fjármunum af veiðigjaldi? Ef ekki, verða slíkar tillögur lagðar fram af ráðherra byggðamála á næstunni?

Ríkisstjórnin ákvað með fjáraukalögum í mars 2003 að verja 700 milljónum til að efla atvinnuþróunarátak á landsbyggðinni. Er búið að móta verkáætlun um hvert fjármunirnir eiga að fara og skilgreina hvað er markvisst þróunarstarf í hverjum landshluta fyrir sig, með það að markmiði að sérstök áhersla verði lögð á ,,ný atvinnutækifæri í minni byggðarlögum þar sem atvinnulíf er einhæft``, eins og það er orðað í þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005?

Hefur ráðherra látið kanna hvort og hvaða áhrif tilfærsla á aflakvótum, aflamarki og aflahlutdeild, hefur haft á fjölda starfa iðnaðarmanna eða fólks í þjónustugeirum sjávarútvegs í minni sjávarbyggðum? Þar miða ég við sjávarbyggðir með færri en 4 þús. íbúa.