Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:32:59 (456)

2003-10-13 15:32:59# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ærið tilefni til að velta þessum málum fyrir sér sem hér er hreyft í utandagskrárumræðu. Við verðum að vera þess meðvituð að þróun á sér ævinlega stað og mun gera óháð því hvernig kerfi við smíðum til að stjórna hlutunum. Við vitum það að á undanförnum árum og áratugum hafa orðið miklar breytingar í sjávarútvegi sem leiða af sér fækkun starfa. Þær hefðu orðið óháð því hvernig við stjórnuðum fiskveiðum okkar. Við höfum mætt þeim breytingum að mörgu leyti með því að stækka atvinnusvæði, bæta þjónustu fólksins sem býr í þessum plássum og auðvelda því að sækja önnur störf nálægt sinni heimabyggð þannig að menn hefðu úr öðru að moða en störfum í sjávarútvegi. Við eigum að halda áfram á þessari braut, stækka atvinnusvæði, bæta samgöngur o.s.frv.

En hinu er ekki að neita að það sem er undirstaða sjávarbyggðanna er sjávarútvegurinn. Það er vegna þess að þeir sem ekki starfa beinlínis við þá atvinnugrein í viðkomandi plássum hafa með óbeinum hætti atvinnu af hinum sem það gera. Þess vegna hljóta breytingar í þeirri grein að hafa mikil áhrif og við sjáum að frjálsa framsalið hefur haft gríðarleg áhrif. Samþjöppun veiðiheimilda á fáa staði hefur raskað þessu jafnvægi sem var um langt árabil hringinn í kringum landið. Afleiðingarnar hafa verið slæmar. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því. Við sjáum t.d. á Vestfjörðum að á tímum hins frjálsa framsals þar sem Vestfirðingar hafa misst um 40% af veiðiheimildum sínum í hlutdeildum talið hefur fólki fækkað um 20% á rúmum áratug og atvinnutekjur Vestfirðinga hafa lækkað úr því að vera þær hæstu á landinu í það að vera þær næstlægstu á landinu. Það er alveg augljóst hvað veldur þessari þróun, herra forseti.