Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:35:17 (457)

2003-10-13 15:35:17# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram er vissulega löngu tímabær og ég tek undir með hv. þm. Halldóri Blöndal að við hefðum kannski átt að gefa okkur meiri tíma til að ræða þessa hluti en hér er ætlaður.

Við ræðum hér fyrst og fremst um breytta atvinnuhætti byggða sem eru sjálfsprottnar, þ.e. þær urðu til út af nálægðinni við sjóinn, urðu til vegna þess að þar voru tækifæri. En það hafa orðið miklar breytingar og þær hafa ekki átt sér stað af sjálfu sér, heldur kannski miklu frekar vegna ákvarðana sem teknar voru af stjórnvöldum. Þess vegna átti ég von á því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra kæmi upp í þessari umræðu og mundi opna á það hvaða möguleika þessar byggðir ættu, þ.e. hvað kæmi í staðinn fyrir sjó, hvað kæmi í staðinn fyrir vinnslu sjávarafurða og nýtingu á auðlindinni. Og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það kom nánast ekki neitt. Það eru nokkur smáverkefni hér og þar um landið. Að öðru leyti er algerlega tíðindalaust. Þegar þessi sjónarmið koma frá stjórnvöldum finnst mér alveg lágmark, virðulegi forseti, að þau greini einnig frá því hvaða byggðir eiga að lifa og hvaða byggðir eiga að deyja. Það finnst mér vera lykilatriði og menn þá svari þeirri spurningu. Það er alveg ljóst eins og reyndar kom fram hjá hæstv. ráðherra að þeir sem vilja fjárfesta á landsbyggðinni hljóta að ganga hægt þar um sökum þess mikla óstöðugleika sem því fylgir að undirstöðurnar eru að bresta. Það er það mikill óstöðugleiki í þessum byggðum að menn sjá ekki að það sé hægt að byggja ofan á það sem fyrir er. Sá er vandinn.

Ég hefði viljað heyra hæstv. ráðherra greina frá því hvað hún sæi í raun og veru í þessari stöðu en ekki bara að það væru nokkur tilraunaverkefni í gangi í nokkrum skólum hringinn í kringum landið. Það er ekki lausn á þessum vanda.