Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:40:09 (459)

2003-10-13 15:40:09# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sannarlega ekki vanþörf á að ræða hér stöðu minni sjávarbyggða eins og hv. málshefjandi tók upp og þótt það væru byggðir við sjávarsíðuna almennt. Þar eru mjög víða blikur á lofti. Það hefur komið til fjöldauppsagna á allmörgum stöðum á undanförnum vikum og mánuðum og annars staðar er mikil óvissa uppi. Það er einmitt við þær aðstæður sem hæstv. ríkisstjórn velur að skerða atvinnuleysisbætur.

Það sem er nýtt í umræðunni er að það eru ekki aðeins íbúar hinna minni sjávarbyggða hverjum er órótt þessa dagana. Nú ber svo við að einnig íbúar stærstu byggðanna, þar sem eru höfuðstöðvar margra af stórfyrirtækjum landsins í sjávarútvegi sem hafa verið að sanka til sín veiðiheimildum undanfarið, sofa órótt vegna sviptinga í eignarhaldi þessara fyrirtækja þar sem enginn veit hver mun eiga annan eða stjórna öðrum deginum lengur. Það vekur athygli á þeirri staðreynd að í sjávarútvegskerfi þar sem er frjálst framsal afnotaréttarins verður þetta svona. Þetta verður hinn viðvarandi veruleiki, bæði lítilla byggða og stórra, meðan engin tenging er við byggðirnar og íbúa þeirra hvað aðganginn að auðlindinni snertir. Við skulum horfast í augu við það að þetta er óumflýjanlegur fylgifiskur núverandi kerfis og er komið til að vera sem veruleiki íbúa í sjávarbyggðum Íslands þangað til breytingar verða gerðar þarna á. Þetta sverð mun hanga í loftinu yfir byggðunum með öllu því sem fylgir. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á það að menn vinni sig út úr þessu kerfi og byggðatengi afnotaréttinn í einhverjum verulegum mæli og það er engin önnur leið til í markaðsvæddum sjávarútvegi en að tryggja með einhverjum slíkum hætti afnotaréttinn. Annars búa menn ósköp einfaldlega við óbreytt ástand í þessum efnum.

Að sjálfsögðu er vandi sjávarbyggðanna ekki bara sjávarútvegsstefnan. En annað og góð viðleitni kemur til lítils ef sjálfan atvinnugrundvöllinn brestur. Það eru fátækleg svör hjá hæstv. ráðherra að tala um hluti af því tagi sem hún hér ræddi en minnast ekki á aðalatriði málsins, kjarnann sjálfan.