Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:49:21 (463)

2003-10-13 15:49:21# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka alveg sérstaklega fyrir þessa umræðu vegna þess að mér finnst hún hafa verið málefnalegri en oft áður þegar fjallað hefur verið um byggðamál. Það var lítið um upphrópanir og það finnst mér mikilvægt m.a. vegna þess, og eins og kom fram í máli eins hv. þm., að fólkið má ekki missa trúna á sjávarbyggðum. Það skiptir mjög miklu máli. Þessi umræða, alla vega að mínu mati, var ekki á þann veg að auka á vantrú fólks á því að sjávarbyggðirnar eigi framtíð. Það er hins vegar algerlega ljóst, og þar eru ábyggilega allir sammála, að málið er ekki einfalt og það hefur ekki verið leyst til allrar framtíðar, það er langt frá því. Við munum áfram upplifa að það komi upp vandi í einstaka sjávarbyggðum eins og er í dag. Þannig er það. Það er ekki þannig að það sé hægt að skýra allt með sjávarútvegsstefnunni. Þessi umræða snerist kannski óþarflega mikið um sjávarútvegsmál af því að hún átti ekki að vera um þau. Ef hún hefði verið um sjávarútvegsmál, hefði hún verið gagnvart sjútvrh., en það var ekki. Þannig að ég ætla að forðast að fara allt of mikið út í sjávarútvegsmálin. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að nefna að það eru ýmsar aðrar ástæður sem gera það að verkum að erfiðleikar geta komið upp m.a. það sem er að gerast varðandi þróun fiskiðnaðar. Fyrir 10 árum voru um 10 þúsund manns að störfum við fiskiðnað og það eru 5 þúsund í dag. Einhvers staðar kemur þetta við. En það eru möguleikar í sambandi við líftækni og fleira mætti nefna.

Við erum náttúrlega ekki að fjalla bara um Vestfirði. Við hefðum getað nefnt Austfirði, þar er margt jákvætt að gerast. En mér þykir leitt að þurfa að segja það að flokkur hv. málshefjanda studdi hvorki álverið né Kárahnjúkavirkjun. Þegar stóru tækifærin gefast er mikilvægt að fólk styðji slík byggðamál eins og uppbygging stóriðju og þegar um virkjun á Austurlandi er að ræða.

En ég vil þakka umræðuna og ég endurtek það að mér fannst hún málefnaleg.