Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:26:58 (469)

2003-10-13 16:26:58# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, menn geta haft þá skoðun að þetta séu fullgild rök. Ég vil þó fyrst taka fram að þessi tillaga fjallar ekki um það að allur fiskur fari á markað. Hún fjallar um aðskilnað veiða og vinnslu og vitanlega mun það hafa þau áhrif að meiri fiskur muni fara á markað, en tillagan sjálf gengur ekki nákvæmlega út á það.

Mér fannst þau rök sem komu frá forstjóra ÚA í sumar í kringum kosningarnar ekki fullgild. Ég held að fyrirtæki sem standa í lappirnar í samkeppni eigi ekki að þurfa að óttast hvert annað. Þetta er spurning um leikreglur. Og þeir sem eru bestir lifa auðvitað af. Þeir sem eru hræddir við samkeppnina hljóta að vera hræddir um að þeir séu ekki bestir og það er auðvitað þeirra vandi. Mér finnst það vera svolítið mikið vantraust á sjálfa sig þegar menn koma og lýsa því yfir að ef leikreglum verður breytt séu þeir ekki lengur samkeppnishæfir.

En síðan um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Ég tel ekkert athugavert við það að útlendingar komi hér inn í sjávarútveg svo fremi að búið verði að taka á atriðum sem varða eignarhald á veiðiréttinum. En á meðan það hefur ekki verið gert tel ég það mjög varhugavert.

Hins vegar veit ég ekki betur en hv. ráðherra utanríkismála, formaður Framsfl., hafi lýst því yfir að hann sæi fullkomlega ástæðu til að skoða það að útlendingum verði hleypt inn í sjávarútveginn án þess að breyta kerfinu. Mér finnst ekki hafa verið færð nægilega góð rök fyrir að það sé hægt að gera.