Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:46:33 (473)

2003-10-13 16:46:33# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ekki alveg hvað hv. þm. Jón Bjarnason og flokkur hans vilja í þessum efnum. Annars vegar finnur hv. þingmaðurinn að því að ekki sé gengið nógu langt í þáltill. sem hér er til umræðu. Hins vegar vill hann mjög skarpa byggðatengingu í það kvótakerfi sem hann telur sig þó vera á móti.

Ég verð að segja að ég tel að þetta frv. sé einmitt skref í áttina og mæti þeim mótbárum sem ýmsir hafa hér haft, t.d. hv. þm. Hjálmar Árnason og fleiri út og suður, gegn því máli að allur fiskur fari á markað. Hér er gert ráð fyrir aðskilnaði. Fyrsta skrefið er þá aðskilnaður, fjárhagslegur aðskilnaður, rekstrarlegur vissulega, en gagnsær þannig að fyrirtæki, sem bæði eru í útgerð og fiskvinnslu, sjái á hvaða verði þau selja fiskinn frá útgerðinni til fiskvinnslunnar. Þar með geta sjómenn borið það saman við annað verð og fiskvinnsluhlutinn, ef hann stendur í lappirnar, segir við útgerðarhlutann að þetta sé ekki verð sem þeir geti sætt sig við og þeir geti í raun og veru fengið fiskinn annars staðar. Þannig hafa ýmis stórfyrirtæki verið að hluta sig sundur til þess að nýta markaðskerfið almennilega. Það er það sem þingmennirnir hv. leggja til með tillögu sinni og er skynsamleg stefna.

Mín skoðun er sú að byggðatenging geti aldrei verið annað en neyðarúrræði, þegar sérstök kreppa ríkir í sjávarútvegi í einstökum byggðum, af einhverjum ástæðum sem geta verið fjölmargar, að byggðatenging sé í raun og veru ekki almennur kostur, heldur eigi frjáls viðskipti að tryggja hag byggðanna eins langt og þau ná. Frjáls viðskipti eru líka það sem leyfir eðlilegri byggðaþróun að eiga sér stað í staðinn fyrir að rígbinda allt í einhverjar tengingar sem stjórnmálamenn af ýmsu tagi ráða síðan upp og niður.