Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 17:41:48 (480)

2003-10-13 17:41:48# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. til laga sem hér er til umræðu lætur ekki mikið yfir sér, er tvær greinar, en getur haft veruleg áhrif og í rauninni kannski meiri afleiðingar en flutningsmenn virðast hafa gert ráð fyrir og mun ég víkja frekar að því síðar.

Auðvitað ber að fagna því að hv. þingmenn skuli hafa áhuga á að lækka matvælaverð. Við vitum öll að matvælaverð á Íslandi er of hátt þó svo kannski megi draga það í efa að það sé 17,4% ráðstöfunartekna eins og var samkvæmt þeirri könnun frá 1995 sem vísað er til í grg. með frv. Við verðum að átta okkur á því að það hefur töluvert breyst síðan árið 1995. Það hefur orðið eða komið til mun meiri samkeppni á matvælamarkaði og fjöldinn allur af lágvöruverðsverslunum bæst þar við. En eftir sem áður stendur það auðvitað upp úr að matvælaverð er of hátt og við finnum það hvert á eigin skinni.

Eins og ég gat um áðan er svo að sjá af frv. að áhrifin séu kannski mun meiri en flutningsmenn virðast ætla, a.m.k. gat ég ekki greint það hvorki í máli 1. flm. né í grg. með frv. að ætlunin væri að lækka virðisaukaskatt af sölu á annarri vöru og þjónustu en matvöru. Frumvarpið gengur út á það að breyta 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt þannig að í stað hlutfallstölunnar 14% komi 7%. Þetta þýðir ekki eingöngu að matvælaverð lækki. Þetta þýðir að virðisaukaskattur á útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu lækkar úr 14% í 7%. Virðisaukaskattur á afnotagjöldum útvarpsstöðva lækkar úr 14% í 7%. Sömu sögu er að segja um sölu tímarita, dagblaða, landsblaða og héraðsfréttablaða, sölu bóka, sölu á heitu vatni, rafmagni, olíu til hitunar húsa og laugarvatns. Og sömuleiðis aðgangur að vegamannvirkjum.

Hæstv. forseti. Áhrifin eru ekki bara þau að verið sé að lækka virðisaukaskatt á matvörum samkvæmt 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. úr 14% í 7% heldur er einnig verið að lækka virðisaukaskatt skv. 2., 4., 5., 6., 7. og 9. tölul.

[17:45]

Og þá hlýt ég að spyrja, hæstv. forseti: Var það ætlan flutningsmanna frv. að lækka virðisaukaskatt samkvæmt þessum liðum í 7%? Hefði þá ekki verið ágætt að það hefði komið fram í grg. með frv.? Hefði ekki verið gott að það hefði komið fram í máli 1. og 2. flm. sem töluðu hér áðan?

Ég vil líka vekja athygli hv. þingmanna á því, hæstv. forseti, að skv. 2. málsl. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. er sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu skattskyld með 24,5% virðisaukaskatti. Nái þetta frv. að ganga í gegn óbreytt þýðir það að munurinn þarna á milli er enn að aukast, úr því að vera núna annars vegar 14% og hins vegar 24,5% í það að vera 7% annars vegar og 24,5% hins vegar. Var þetta ætlan hv. þm. sem flytja þetta frv.? Var eitthvað hugað að þessu máli við samningu þessa frv.?

Þetta er að vísu sérstakt athugunarefni, hæstv. forseti, vegna þess að ríkisskattstjóri hefur skilgreint hliðstæða aðila í þessu sambandi, m.a. hamborgarastaði, staði sem selja flatbökur eða svokallaða pitsustaði og fleiri þess háttar staði. Þetta eru staðir sem gert er að selja vörur sínar með 24,5% virðisaukaskatti.

Fari maður hins vegar út í bakarí og kaupi til að mynda pitsusneið, sem maður gæti fengið á einhverjum pitsustað, þá þarf að borga 14% virðisaukaskatt. Þannig að þarna er verulegt ósamræmi og ójafnræði á milli aðila og það eru ákveðnar samkeppnishömlur sem í þessu felast, hæstv. forseti.

Ég vil líka vekja athygli á því að skv. 42. gr. laga um virðisaukaskatt er gert ráð fyrir endurgreiðslum til þeirra sem er gert að selja matvæli með 24,5% virðisaukaskatti, þ.e. til veitingahúsa, mötuneyta og hliðstæðra aðila, og þeir eiga sem sagt rétt á því að fá endurgreidda fjárhæð sem nemur 112,5% af innskatti hvers uppgjörstímabils vegna matvælaaðfanga sem bera 14% virðisaukaskatt skv. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr.

Þrátt fyrir þetta ákvæði, virðulegi forseti, þá dugar þetta ekki til til þess að rétta af samkeppnisstöðu þessara aðila, til að mynda pitsustaða eða hamborarastaða gagnvart öðrum stöðum eins og t.d. bakaríum. Samkeppnisaðstaðan er bara orðin allt önnur í dag en hún var þegar þessi lög voru sett og þessi reglugerð á sínum tíma. Nú er til að mynda sala á skyndibitum í auknum mæli að færast inn í bakarí þar sem menn kaupa sér pitsusneið og borga 14% virðisaukaskatt í staðinn fyrir að hlaupa á næstu pitsustað og kaupa sér pitsusneið með 24,5% virðisaukaskatti. Þetta er auðvitað eitthvað, hæstv. forseti, sem við þurfum að skoða og ég vona að verði skoðað við frekari meðferð málsins á Alþingi.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að þetta frv. kostar auðvitað sitt. Í grg. með frv. er talað um 4--5 milljarða kr. Fyrsti flm. frv. gat um það hér áðan að líklega mundu sparast 5,5 milljarðar hjá fjölskyldunum í landinu með samþykkt þessa frv. Þannig að þær hækka nú ört tölurnar, hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að þessar tölur miðast eingöngu við afnám svokallaðs matarskatts, þ.e. lækkun virðisaukaskatts á matvælum úr 14 í 7%. Ég geri ekki ráð fyrir því að hér sé meðtalin lækkun samkvæmt öðrum töluliðum í 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt. Ef svo er geri ég ráð fyrir því að hv. flutningsmenn þessa frv. muni gera grein fyrir því síðar í umræðunni.

Í kosningunum síðasta vor gekk Framsfl. til kosninga undir kjörorðinu ,,Vinna, vöxtur, velferð``. Þá sögðumst við ætla að lækka skatta um 20 milljarða á kjörtímabilinu. Það svigrúm er fyrst og fremst til komið vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Þær framkvæmdir gera það að verkum að hagvöxtur mun aukast á kjörtímabilinu, þær framkvæmdir gera það að verkum að tekjur ríkissjóðs munu aukast, og þetta mun auðvitað gerast að mestu leyti undir lok kjörtímabilsins. Þess vegna geta menn ekki gert ráð fyrir því að fimm mánuðum eftir kosningar verði búið að lækka alla skatta um 20 milljarða. Það er ábyrgðarlaust tal, hæstv. forseti, og við framsóknarmenn tökum ekki þátt í slíku.

Það er hins vegar fagnaðarefni að Samfylkingin skuli núna vera tilbúin til þess að eyða þessum ávinningi af stóriðjuframkvæmdunum. Þegar verið var að fjalla um þessar framkvæmdir á hinu háa Alþingi á síðasta þingi þá gekk Samfylkingin klofin til leiks. En það er sérstakt ánægjuefni að hún skuli þó vera sammála um hvernig eyða eigi ávinningnum af þessum framkvæmdum og að hún skuli þá standa sameinuð aftur í þessu tilviki. (Gripið fram í: Það voru nú fleiri klofnir, var það ekki?) Hvernig menn ætla að ráðstafa þessum auknu þjóðartekjum, auknum tekjum ríkissjóðs, er sameiginlegt úrlausnarefni okkar sem sitjum á hinu háa Alþingi.

Ég lít á þetta frv. hv. þingmanna sem innlegg inn í þá umræðu en ég bendi á að það eru ýmis atriði sem þarf að taka frekar til skoðunar í þeim efnum og það þarf líka að fjalla um önnur mál eins og til að mynda lækkun tekjuskatts og fleiri atriði. Þetta er fyrsta skrefið og það er í sjálfu sér ástæða til að fagna því að frv. skuli vera komið fram og ég vona að það fái eðlilega og málefnalega meðferð hér á hinu háa Alþingi.