Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:26:03 (484)

2003-10-13 18:26:03# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er búið að gera prýðilega grein fyrir þessu máli hér. Ég ætla samt að bæta við fáeinum orðum. Matvælaverð er of hátt á Íslandi, jafnvel hærra en fram kemur í þeim könnunum sem við höfum vitnað í, einfaldlega vegna þess að landbúnaðarstyrkir á Íslandi eru mjög háir. Við erum að borga helminginn af kjötverði sem bændur fá með sköttunum okkar og helminginn af mjólkurverðinu erum við líka að borga með sköttunum okkar. Þannig kemur ekki nákvæmlega fram hver munurinn er. Ég veit ekki betur en við eigum enn metið, eins og í svo mörgu, í OECD hvað varðar stuðning við landbúnað.

Ég spyr: Hvenær ef ekki núna ættum við að taka ákvörðun um að lækka skatta með þeim hætti sem hér er talað um? Ég hef bent á það áður í þinginu í haust að það er ekki víst að menn fái tækifæri til þess þegar líður á þetta kjörtímabil. Spennan gæti komið í veg fyrir slíkar ákvarðanir. Nú er möguleiki á að taka ákvarðanir af þessu tagi. Nú reynir í raun á hvað menn meina mikið með því að ætla að standa við kosningaloforðin á eigin ábyrgð. Það er léttvægt að standa við kosningaloforð á ábyrgð næstu ríkisstjórnar. Það er léttvægt. Það er ekki merkileg pólitík að taka ákvarðanir um bagga á bakið á ríkisstjórninni sem á að taka við á eftir. Mér sýnist ýmislegt stefna í að skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar verði af því taginu nema því aðeins að menn ætli að steypa hér öllu í glötun í verðlagsmálum í þessu landi. Ég trúi ekki að svo verði gert.

Hér er á ferðinni tillaga sem skiptir verulega miklu máli fyrir almenning og alveg sérstaklega fyrir lágtekjufólk. Ég held að ekki sé hægt að finna neina leið sem yrði minna umdeild en þessi, yrði hún fyrir valinu.

Ég hef tekið eftir því að það er ekki mikil þátttaka af hálfu sjálfstæðismanna við umræður af þessu tagi. Við vorum fyrr í dag að tala um samkeppnisreglur, um viðskiptaumhverfi og samkeppnisreglur í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa gefið sig út fyrir að vera forustumenn fyrir frjálsa samkeppni og skattalækkanir hafa kannski verið sjálfstæðismenn öðrum fremur. Þeir mættu ekki í umræðurnar í dag um viðskiptaumhverfi, frjálsa samkeppni og betri leikreglur hvað varðar sjávarútveginn. Þeir hafa ekki enn þá tekið til máls eða sett sig á mælendaskrá svo að ég viti í þessu máli sem snýst um skattalækkanir.

Ég skora á hina ungu og vösku sveit að mæta til leiks og taka þátt í umræðunum um skattalækkanirnar. Við samfylkingarmenn höfum lagt tillögur okkar á borð þingsins til að ræða og fara yfir hvernig þeir hyggjast standa við stóru orðin. Það er ekki nóg að segja: Jú, jú, við ætlum að lækka um 20 milljarða einhvern tíma á kjörtímabilinu. Það er engan veginn víst að það verði hægt og ekki trúverðugt heldur þegar menn geti ekki gert bærilegar grein fyrir máli sínu en þetta.

Auðvitað mætti margt segja um matvælaverð á Íslandi og hvernig það verður til. Sjálfsagt verðum við að búa við það til framtíðar að það verði hærra hér en í öðrum löndum. Hér er einfaldlega ýmis kostnaður hærri, flutningsgjöld, erfiðar aðstæður til að framleiða sumar vörur innan lands o.s.frv. En það er ljóst að við gætum búið við miklu lægra matvælaverð en er í dag því að flutningsgkostnaðurinn getur ekki útskýrt að munurinn sé svo gífurlegur á milli þeirra landa sem næst okkur liggja og verðsins sem er hér á Íslandi.

Við verðum þess vegna að leita leiða til að hafa áhrif á markaðinn. Það er m.a. hægt að gera með þessu. Þegar ríkið gengur fram fyrir skjöldu með því að lækka skatta eins og hér er lagt til þá er það líka áskorun á þá sem taka þátt í viðskiptalífinu um að koma í slaginn með okkur. Ég held að það væri verðugt verkefni hins opinbera, auk verslunarmanna og annarra sem hafa áhrif á matvöruverð á Íslandi, að taka sér svolítinn tíma í það verkefni að koma á eðlilegra matarverði í landinu og gera það byggilegra fyrir ungt fólk sem finnur mikið fyrir hinu háa matvælaverði.