Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:32:49 (485)

2003-10-13 18:32:49# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Frjálslyndi flokkurinn er hlynntur því að leitað verði allra leiða til þess að lækka matvælaverð á Íslandi og finnst koma til greina að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% og í 7%. Þetta kæmi sér afar vel fyrir fjölskyldurnar í landinu. Báðir stjórnarflokkarnir ætla að lækka skatta eða sögðu það a.m.k. fyrir kosningar en hafa lítið gert síðustu daga annað en hækka skatta og öll gjöld. Þeir hækkuðu þungaskattinn og bensíngjaldið um 8% sem kemur landsbyggðinni afar illa, hækkuðu komugjöld á heilbrigðisstofnanir, hirða hluta af tryggingagjaldi sem rann áður sem sparnaður í vasa launþega, ráðast á kjör atvinnulausra með mjög sérstæðum hætti og skerða vaxtabætur heimilanna.

Það kemur mér verulega á óvart að sjá að stjórnarmeirihlutinn vilji ekki leggjast yfir þessar tillögur um lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Ef til vill er engin meining á bak við loforðin sem gefin voru í vor um skattalækkanir og línuívilnun.

Virðulegi forseti. Okkur í Frjálslynda flokknum finnst þetta vera jákvætt mál sem eigi að fá góða umfjöllun í nefnd og koma svo til afgreiðslu hér síðar.