Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:34:46 (486)

2003-10-13 18:34:46# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka þá prýðilegu umræðu sem hér hefur farið fram um eitt af helstu stefnumálum Samfylkingarinnar á þessu þingi. Það gleður mig sérstaklega hversu rík þátttaka hefur verið af hálfu þeirra sem eru ung í okkar röðum og ný og ég vil sérstaklega þakka þeim. Það var gaman að hlýða á jómfrúrræðu hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sem að vísu hafði tekið til máls í stefnuræðu fyrir hönd okkar samfylkingarmanna.

Ég vil hins vegar segja að það skipti nú í tvö horn með ræður þessara tveggja hv. þm. því mér fannst sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, þó að hann hafi flutt hér alveg prýðilega jómfrúrræðu, hafi tekið heldur neikvæða stefnu í þessu máli. Ég fæ ekki betur séð af henni en hér sé kominn upp a.m.k. fulltrúi eins flokks sem er á móti þessu máli. Að öðru leyti sýnist mér á umræðunni að flestir flokkar nema hugsanlega Framsfl. séu hlynntir þessu máli.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði aðallega að umræðuefni þá miklu áherslu sem við höfum lagt á lækkun virðisaukaskatts á matvælum og fann að því að ég sem 1. flm. skyldi ekki gera frekari grein fyrir þeim fimm eða sex öðrum liðum sem er að finna í lagagreininni sjálfri. Það kann vel að vera að hv. þm. þyki það rangar áherslur en þetta eru áherslur Samfylkingarinnar. Ef hv. þm. hefði fylgst með greinaskrifum og umræðum og ræðum okkar í kosningabaráttunni hefði hann séð hvað það var sem við vorum að leggja til með þessu en frumvarpsgreinin stendur auðvitað fyrir sínu, herra forseti.

Hv. þm. sem er að vísu fulltrúi þeirra sem vilja auka neyslu á lambakjöti kom hér aðallega upp til að verja þá sem selja pitsur í bakaríum. Út af fyrir sig er það málstaður sem ber að verja, herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við það þó að ég sjálfur sé ekki tíður kaupandi slíks varnings í hinum ágætu bakaríum sem hér er að finna í borginni.

Hv. þm. gerði sömuleiðis að umræðuefni ákveðna túlkun sem mér fannst hann vera að leggja í 2. mgr. 8. tölul. í 14. gr. laganna sem við erum að leggja til breytingar á. En ef ég man rétt, herra forseti, er þar talað um að sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra skyldra aðila á tilbúnum mat skuli samt sem áður skattskyld samkvæmt þeirri 1. mgr. sem er að finna í 14. gr. og ég get ekki farið með hér af því að ég kann hana ekki utan að, en hún er um það að virðisaukaskatturinn skuli vera 24,5%.

Herra forseti. Ég vil líka gera athugasemd við það sem hv. þm. sagði um afstöðu okkar til stórvirkjana á Austurlandi. Það er ekki hægt fyrir hv. þm. að koma hér og kvarta undan því að Samfylkingin hafi ekki stutt það mál. Það vita allir sem hér voru þegar málið fór í gegnum þingið að það voru, minnir mig, 15 af 17 þingmönnum Samfylkingarinnar sem studdu það. En, herra forseti, ég tel samt sem áður að öllum mönnum sé hægt að koma til nokkurs þroska og ég geri mér vonir um það að Framsfl. muni þegar líður á þetta kjörtímabil sjá að það er í anda þeirra sem stofnuðu hann, þeirra sömu manna sem stofnuðu líka flokk jafnaðarmanna á sínum tíma, að fara einmitt þessa leið. Það er í anda jafnaðarstefnunnar og þeirra sem vilja koma þeim til liðsinnis sem eiga erfiðast með að lækka skatta með því að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Það er það sem ég held að skipti langmestu máli varðandi skattalækkanir á næstu árum.

Ég vil líka segja það, herra forseti, vegna þess að ég gerði sérstaka athugasemd við það að hv. þm. Sjálfstfl., sem ég hef áður sagt að hafi skolað hingað inn á fjörur Alþingis eins og hverjum öðrum kjörvið norðan úr Íshafi á bylgju boðunar skattalækkunarfagnaðarerindisins, voru ekki hér í dag en þeir hafa komið hingað til umræðunnar og ég virði það, herra forseti. Ég hefði auðvitað kosið að hlýða á þá ungu hv. þm. koma hingað og lýsa a.m.k. siðferðilegum stuðningi í orði við málið. Ég túlka alla vega nærveru þeirra þannig að þeir telji að málið sé gott og þeir koma þá hingað og leiðrétta mig ef um annað er að ræða. Hins vegar get ég ekki annað en sagt það, herra forseti, í tilefni þessarar umræðu að það er auðvitað grátlegt að sjá með hvaða hætti Sjálfstfl. byrjar að efna loforð sín um skattalækkanir. Flokkurinn hefur núna á nokkrum dögum lagt fram frv. þar sem í fyrsta lagi er lagt til að þungaskattur verði aukinn um 400 millj. Í öðru lagi að besíngjald verði aukið um 600 millj. Í þriðja lagi að vaxtabætur verði skertar um 600 millj. Og í fjórða lagi að skattalegur hvati ríkisins til þess að efla viðbótarlífeyrissparnað verði fjarlægður og það eru aðrar 500 millj. Þá eru ótaldar ýmsar aðrar aðgerðir sem hægt er að telja til skattahækkana. Hæstv. fjmrh. byrjar sem sagt á því að hækka skatta og svo ætlar hann hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni að lækka þá aftur. Herra forseti. Þetta er að byrja á öfugum enda.

Nú vil ég segja það alveg hreinskilnislega að ég og Samfylkingin deilum þeim björtu vonum sem margir stjórnarliðar hafa flutt um framvindu efnahagsmála í þessum sölum. Og ég hef sagt það alveg hreinskilnislega að ég tel að við Íslendingar stöndum núna frammi fyrir alveg einstæðu tækifæri. Ég held að það sé mögulegt á næstu árum að sigla í gegnum þá þenslu sem kann að bíða okkar ef menn gæta ekki að sér, en það þarf samstillt átak. Það þarf samstillt átak stjórnarandstöðu og stjórnarliða og það þarf samstillt átak verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. Og ef það tekst, held ég að Íslendingar standi frammi fyrir meiri auðlegð en þeir hafa áður staðið frammi fyrir. Þá er ég líka að hugsa aftur í tímann til áratugarins eftir seinni heimsstyrjöldina þegar hér voru miklir uppgangstímar eins og ég hef rakið áður í ræðum á Alþingi.

En það er algerlega nauðsynlegt, herra forseti, að til þess að þetta sé hægt þá taki menn saman á. Og ef menn segja að þeir ætli að lækka skatta, þá skulum við byrja núna og við skulum einmitt byrja með því að lækka skatta hjá þeim sem þurfa það mest. Það er barnafólkið. Það eru þeir sem hafa minnst umleikis. Og sú leið sem er best til þess er einmitt sú leið sem við leggjum hérna til að lækka virðisaukaskatt úr 14% í 7% á þeim þáttum sem getið er um í lagagreininni sem við viljum breyta. Þetta mundu menn gera ef þeir vildu sameinast um að jafna lífskjörin. Ég el þá von í brjósti að það takist á þessu þingi að ná samstöðu um þetta mál. Ef ekki, þá mun Samfylkingin a.m.k. berjast fyrir því að málið nái fram að ganga þótt síðar verði á kjörtímabilinu og það mega hv. þm. stjórnarliðsins vita að við munum ekki þreytast á því að halda þeim við efnið.