Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:50:09 (491)

2003-10-13 18:50:09# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hefur verið flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar um tillögur um lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% er allra góðra gjalda vert. Og sú nálgun sem lögð er fram í hugsanlegum skattabreytingum eða skattalækkunum, að lækka skatta á þeim sem hafa sem mesta þörf fyrir það, almennu launafólki, barnafjölskyldum o.s.frv. og rakið er í greinagerðinni, sú nálgun finnst mér vera ágæt hvað það varðar.

Það er þó rétt að halda til haga að miklar breytingar, miklar skattalækkanir rýra tekjur ríkissjóðs og koma einhvers staðar niður í útgjöldum ríkissjóðs á móti. Þess vegna skiptir máli þegar flutt eru frv. um gríðarlegar breytingar í skattkerfinu að maður geri sér grein fyrir því að það hefur líka áhrif á útgjöld og forgangsröðun útgjalda ríkisins ef þar verður um tekjuskerðingu að ræða hjá ríkinu í heild sinni. Þetta finnst mér kannski vera það sem vantar þegar farið er í svona mikla skoðun og ég ítreka það að þetta þarf að skoðast í heild en ég ber fulla virðingu fyrir nálguninni.

Ég vil líka, varðandi greinargerðina, taka undir það að við getum á eigin forsendum haft áhrif á matarverð hér á landi, með breytingum á skattalöggjöfinni og með breytingum á virðisaukaskatti. En sú röksemd sem hér er tínd til að hin leiðin sé að ganga í Evrópusambandið og lækka með því matarverð finnst mér algerlega út í hött, enda hefur hún alls staðar reynst óraunsæ.