Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:54:44 (493)

2003-10-13 18:54:44# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. á að ég held að flestir, nema einstaka félagar í hans flokki, geri sér grein fyrir því að innganga í Evrópusambandið breytir ekkert matarverði hér. Það er meiri breytileiki á verði innan ríkja Evrópusambandsins miðað við meðaltalstölur frá Evrópusambandinu og annarra ríkja. Það eru allt önnur atriði sem hafa áhrif á, eins og launastrúktúr og annað því um líkt innan landanna þannig að mér finnst það ljóður á annars nokkuð bærilegri greinargerð að þingmenn Samfylkingarinnar skuli stöðugt troða inn þessari Evrópusambandsaðildarhugsun sinni. Það verður að ganga inn í Evrópusambandið og ef ekki, þá verður að grípa til þessara og þessara aðgerða. Mér finnst það ljóður, virðulegi forseti, á annars nokkuð góðri greinargerð að þessu skuli vera troðið inn fullkomlega að ósekju og skemmir málið ef eitthvað er. En innganga í Evrópusambandið er ekki okkur til framdráttar né mun lækka hér matarverð, virðulegi forseti.