Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:56:13 (494)

2003-10-13 18:56:13# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Sá ágreiningur sem er millum mín og hv. þm. Jóns Bjarnasonar um Evrópu er löngu kunnur. Sá ágreiningur er á allra vitorði. Það er kannski bara tímaeyðsla að deila við hv. þm.

Ég ætla ekki að halda því fram að hann muni sjá ljósið eins skjótt og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson fyrr í dag. Þó el ég þá von í brjósti að hv. þm. Jón Bjarnason muni líka leyfa sér þann munað að skoða þetta af fordómaleysi í framtíðinni. Hv. þm. hefur áður sýnt að hann er fullkomlega fær um það. Ég gæti farið í langa umræðu um þær röksemdir sem hv. þm. hefur stundum flutt gegn skoðunum mínum en ég veit að hann má ekki tala hér aftur og ætla því ekki að gera það. Ég vil aðeins þakka honum fyrir ummæli hans um þá leið sem við leggjum til. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að menn eiga að reyna að verða samferða eins langt áleiðis og kostur er. Við getum farið töluvert langt í þessu máli saman, ég og hv. þm., áður en að því kemur að fyrir okkur verður vegpóstur þar sem á stendur: Evrópusambandið og Brussel.