Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 13:55:22 (504)

2003-10-14 13:55:22# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir frumkvæði að þessari umræðu um málefni geðsjúkra. Á þessu sviði má hvorki löggjafinn né framkvæmdarvaldið nokkurn tíma sofna á verðinum, við þurfum stöðugt að stuðla að bættum úrræðum.

Á þeim akri sem geðheilbrigðissviðið er kennir margra grasa. Þannig hafa sprottið upp sjálfshjálparsamtök sem hafa mörg unnið ágætt starf og vísa ég þar t.d. í klúbbinn Geysi. Þetta er mikilvæg hliðarstarfsemi við sjálft heilbrigðiskerfið.

Í tengslum við alþjóðageðheilbrigðisdaginn hafa birst greinar í fjölmiðlum, þar á meðal grein eftir formann Félags foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga. Það hefur verið vitnað til þessarar greinar hér í þessum umræðum. Ég vil benda á ábendingar sem þar koma fram um brotalamir í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Íslandi sérstaklega. Formaður þessa félags, Kristján Már Magnússon, bendir á að minna hlutfall barna njóti hjálpar heilbrigðiskerfisins en gerist almennt á Norðurlöndum. Og það er annað sem hann leggur einnig mikla áherslu á, það er skorturinn á samhæfingu innan kerfisins. Þar vísi aðilar hver á annan og í því sambandi vil ég sérstaklega nefna þær áherslur sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð setti fram fyrir síðustu alþingiskosningar. Við lögðum ríka áherslu á að á þessu yrði gerð bragarbót. Í kosningabæklingi okkar segir um áherslur okkar að stuðningsteymi í hverju heilsugæsluumdæmi verði komið á fyrir fólk með félagslega eða geðræna röskun.

Á þetta vildi ég leggja sérstaka áherslu við þessa stuttu umræðu hér.