Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:04:27 (508)

2003-10-14 14:04:27# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil sem aðrir þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka upp þetta mál. Ég þakka einnig hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er að sjálfsögðu lofsvert svo langt sem það nær, það sem verið er að reyna að gera í þessum málaflokki, eins og t.d. að bæta úr löngu tímabærum og óviðunandi aðstæðum barna- og unglingageðdeildarinnar sem lengi hafa náttúrlega verið til skammar. En það breytir ekki því, og ég hygg að það sé samdóma mat flestra sem til þekkja, að geðheilbrigðismálin, og ekki síst það sem snýr að börnum og unglingum og fjölskyldum þeirra, eru það svið heilbrigðismála okkar og velferðarþjónustu sem hefur lengi verið í langmestum ólestri. Það vantar allt of mikið upp á að hlutirnir vinni eðlilega saman. Eins og hér hefur rækilega komið fram vantar verulega upp á að skólakerfið, heilsugæslan, félagsþjónustan og eftir atvikum sérhæfðari úrræði myndi eina eðlilega heild; gráu svæðin milli félagslegu úrræðanna annars vegar og heilbrigðisþjónustunnar hins vegar eru allt of mörg og úrræðin eru einfaldlega allt of takmörkuð. Það er því miður engin ástæða til að ætla að þessi vandamál séu minna útbreidd hér á landi en annars staðar í nálægum löndum. Engu að síður blasir sú staðreynd við að úrræðin eru allt frá helmingi og upp í 100% minni eða þaðan af meira, þ.e. það skortir einfaldlega úrræði og bolmagn til þess að takast á við þessi vandamál og úr því þarf að bæta. Ég vil alveg sérstaklega, herra forseti, leggja áherslu á að það er mannlegi þátturinn sem þarf að efla, þ.e. við þurfum að bæta þjónustu sálfræðinga, geðlækna, félagsráðgjafa og annarra slíkra aðila en ekki bæta við lyfjagjöf. Fram hjá þessu þýðir ekkert að horfa. Við komumst hvorki lönd né strönd í þessum efnum nema við séum tilbúin til að taka á vandanum þar sem hann er, og hann er þessi. Það þarf að stórefla þessa þjónustu.