Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:11:20 (511)

2003-10-14 14:11:20# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég heyri að þrátt fyrir allt eru þeir hv. þm. sem hafa tekið þátt í henni sammála um meginatriði málsins, að það þurfi að auka samhæfingu í þessum málaflokki. Þar ber þeim saman við það félag aðstandenda sem er nýstofnað. Ég hef rætt við það fólk og það er rauði þráðurinn í málflutningi þeirra. Það er keppikefli að veita þjónustuna á réttum stað, á réttum tíma og sem allra fyrst. Og ég tek auðvitað undir þetta með mannlega þáttinn. Hann skiptir miklu máli. Þetta verður aldrei gert nema með samvinnu aðila og það er einmitt það sem ég ætlaði verkefnisstjóranum að fjalla um og draga menn til samvinnu af því að ég veit að það er vilji fyrir hendi í þessum málum.

Ég undirstrika einnig að sjálfsprottin félög í þessum geira hafa unnið mjög gott verk og ég þakka þeim sérstaklega fyrir það verk sem þau vinna. Ég hef hlustað á skoðanir og reynslu þess fólks sem þar er um að ræða.

Varðandi samanburðinn við Norðurlöndin vil ég geta þess að tölurnar sem notaðar eru varðandi okkur eru frá 1997. Síðan hefur sem betur fer miðað í áttina því að útgjöldin og aðgerðir hafa aukist umtalsvert síðan þá. Við þurfum samt alveg nauðsynlega að vita hvar við stöndum nákvæmlega og ég hef gert ráðstafanir til þess að farið verði yfir þessar tölur því að það er ekki alveg samræmi í því hvað er talið með til þessara útgjalda og hvað er talið með í þessari þjónustu á Norðurlöndunum. Með þessu er ég ekki að afsaka neitt en við þurfum að fara varlega með þessar tölur. Vonandi getum við samt aukið þjónustuna sem er aðalatriðið og samhæft hana. Það held ég að sé lykillinn að betri tíma í þessu efni.