Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:14:37 (512)

2003-10-14 14:14:37# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki en flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Það þarf varla að fjölyrða um að miklar sviptingar hafa orðið á fjármálamarkaði og í efnahagslífinu á undanförnum árum, þó sérstaklega á undanförnum missirum. Eignarhald fyrirtækja, stórra og smárra, hefur skipt um hendur ótt og títt. Það sem var í gær er annað í dag og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt. Reyndar er þetta einn þeirra kosta sem menn sáu við markaðs- og hlutafélagavæðingu þegar henni var hrundið af stokkunum í byrjun tíunda áratugarins. Þá var ein röksemdin sem sett var fram sú að heppilegt væri að koma á fyrirkomulagi þar sem eignarhald gæti skipt um hendur auðveldlegar en verið hafði. Það eru vissulega orð að sönnu, að eftir að fyrirtæki er breytt í hlutafélag er auðveldara að selja hluta af eignarhaldinu án þess að þurfa að selja fyrirtækið allt. Þetta var einn af kostunum sem menn sáu fyrir sér með hlutafélagavæðingunni og tilkomu kauphallarviðskipta.

Annað sem menn töldu til kosta hlutafélagavæðingar var sú hugsun að með hlutafélagavæðingu kæmu fleiri eigendur að fyrirtækjum, eigendur yrðu fjölmennari hópur en nú er. Þeir sem eldri eru muna eflaust eftir eldheitum barátturæðum Eyjólfs Konráðs Jónssonar, fyrrum þingmanns Sjálfstfl., sem var mikill talsmaður þessa og taldi að með því mundum við að stuðla að lýðræðislegra eignarhaldi í atvinnulífinu. Við vitum öll hvernig til hefur tekist. Draumsýn hans varð að martröð. Eignarhaldið er að færast í sífellt færri hendur en ekki fleiri hendur.

Annað hefur gerst en það er nú staðreynd að bankar sem áður fyrr stunduðu viðskipti, lánafyrirgreiðslu af margvíslegu tagi, eru sjálfir komnir á kaf í atvinnurekstur. Ekki nóg með þetta heldur hafa eigendur bankanna notað þá sem valdatæki til að brjóta sér farveg inn í atvinnulífið.

Fyrir fáeinum árum studdumst við við sterka fjárfestingarsjóði í atvinnulífinu, í iðnaði og sjávarútvegi. Þessir sjóðir voru síðan sameinaðir undir regnhlíf Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Hann var þegar fram liðu stundir gleyptur af Íslandsbanka og þar með var sett í gang sú fjármálahringekja sem ekki hefur stöðvast síðan. Eitt fyrst verk Fjárfestingarbankans var að losa um fjármagn í matvöruverslun. Þar voru losaðir nokkrir milljarðar sem síðan fóru inn í þessa fjármálahringekju.

Menn spyrja hver hafi orðið afraksturinn af þessu. Sú spurning sem skiptir þar mestu máli er hvort þetta hafi orðið til að auka verðmætin í þjóðfélaginu. Ég held að svo hafi ekki verið. Hins vegar hafa margir hagnast á því braski sem fylgt hefur þessum umsvifum.

Það frv. sem hér er lagt fram gerir tilraun til að skilja á milli starfsemi viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarfélaga hins vegar eða lánafyrirtækis sem annast slíkt.

Veigamesta breyting frumvarpsins felst þó í því að takmarka starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða með þeim hætti að þeim verði óheimilt að kaupa verðbréf eða hlutabréf í fyrirtækjum í því skyni að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila, sameina hana annarri starfsemi, skrá viðkomandi verðbréf og selja þau almenningi. Slík starfsemi hefur verið flokkuð sem fjárfestingarbankastarfsemi og gerir frumvarpið ráð fyrir því að einungis lánafyrirtækjum eins og þau eru skilgreind í lögunum verði heimil slík starfsemi. Með þessu er framkallaður skýr aðskilnaður milli viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Þá er í frumvarpinu lögð sú skylda á herðar fjármálafyrirtækja sem stunda tímabundið aðra starfsemi skv. 22. gr. að tryggja að aðkoma þeirra skekki ekki samkeppni á viðkomandi sviði. Í þessu felst t.d. að banka yrði með öllu óheimilt að fjármagna taprekstur fyrirtækis á samkeppnismarkaði og gera því kleift að keppa með ósanngjörnum hætti við samkeppnisaðila með undirboðum eða öðrum slíkum aðferðum í skjóli hins öfluga fjármálalega bakhjarls.

Þótt ekki sé beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum að fyrirtæki hafi fleiri en eitt starfsleyfi er að því er virðist heldur ekkert sem bannar það. Af þeim sökum er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að fjármálafyrirtæki geti einungis starfað á grundvelli einnar tegundar af starfsleyfi á hverjum tíma. Þetta er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að sama fjármálafyrirtækið fái starfsleyfi bæði sem viðskiptabanki og lánafyrirtæki og haldi þar með óbreyttum starfsheimildum.

Á undanförnum missirum hefur komið í ljós að sá lagarammi og þær takmarkanir sem fjármálafyrirtækjum eru settar duga engan veginn til að koma í veg fyrir hagsmuna\-árekstra. Raddir eru uppi um að svokallaðir kínamúrar innan fjármálafyrirtækja haldi ekki og þar með efasemdir um að hagsmunum allra viðskiptavina sé gert jafnhátt undir höfði. Það er hverju fjármálafyrirtæki afar mikilvægt að forðast hvers konar hagsmunaárekstra. Í þessu sambandi er til að mynda augljóst að fjármálafyrirtæki getur enn síður en ella þjónað tveimur samkeppnisfyrirtækjum með trúverðugum hætti ef bankinn er stór eigandi í öðru þeirra. Svipað má segja um þær aðstæður sem koma upp ef fjármálafyrirtæki er annars vegar viðskiptabanki fyrirtækis en hins vegar að versla með eignarhluti í því hinu sama fyrirtæki fyrir eigin reikning. Á undanförnum missirum hafa fjármálafyrirtæki gerst umsvifamikil í kaupum og sölu á fyrirtækjum og beinir gerendur í ýmiss konar sviptingum þar sem tekist er á um hagnaðarvonir, völd og áhrif í viðskiptalífinu. Það er skoðun flutningsmanna að þessi mál séu komin úr böndunum og að óhjákvæmilegt sé að setja umsvifum fjármálafyrirtækjanna ákveðnari skorður í þessum efnum en núgildandi lög gera ráð fyrir og eins og þau hafa verið túlkuð og framkvæmd. Við kringumstæður sem þessar er það skylda löggjafans að skerast í leikinn til að vernda hagsmuni almennra viðskiptavina bankanna og til að takmarka líkur á því að hagsmunaárekstrar verði.

Við höfum sniðið löggjöf okkar að verulegu leyti að því sem tíðkast í Evrópusambandinu. Tilhneigingin hefur verið sú á undanförnum árum að leita þar eftir samræmingu og er það hið besta mál. Við sem höfum haft ákveðnar efasemdir um Evrópusambandið og aldeilis ekki verið á þeim buxunum að ganga þar inn eða gerast aðilar höfum verið fylgjandi því að reyna að stuðla að samræmingu í ýmsu sem lýtur að verslun og viðskiptum, að menn styðjist við svipaða staðla.

Þessi lög eru mjög í anda þess sem tíðkast í Evrópu. Útfærslan á lögunum er hins vegar með mismunandi hætti. Það hefur komið fram, eftir eftirgrennslan hjá Fjármálaeftirlitinu, að þar á bæ hafi verið hugað að því að setja skýrari leiðbeinandi tilmæli, t.d. varðandi 22. gr. laganna um fjármálafyrirtæki sem þetta frv. gerir ráð fyrir að breyting verði gerð á. Ég hef leitað eftir upplýsingum um þetta hjá Fjármálaeftirlitinu. Þar hefur verið staðfest að menn hafi viljað leitað slíkra leiða.

Við teljum hins vegar og höfum einnig fengið um það ábendingar og hvatningu úr viðskiptalífinu, að styrkja þurfi hin lagalegu ákvæði. Ég ætla ekki að þreyta menn á að lesa upp þessar lagabreytingar sem við gerum ráð fyrir. Þetta eru hin almennu sjónarmið sem liggja að baki þessu frv.

Að loknum þessum umræðum legg ég til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. þingsins.