Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:02:22 (520)

2003-10-14 15:02:22# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það var umdeilt, eins og hæstv. viðskrh. veit vel, hvort og þá hvernig skorður væri hægt að setja í lög við eignarhlut. Slíkar skorður eru vel þekktar úr lögum margra annarra landa. Að vísu hafa þær sums staðar verið felldar úr gildi en þær eru enn til staðar sums staðar. Þar virðast menn hafa fundið leiðir til að halda í ákveðnar slíkar takmarkanir. Burt séð frá því gátu menn a.m.k. reynt, ef þeir vildu, að standa þannig að einkavæðingu og sölu bankanna að eignaraðildin yrði dreifð, a.m.k. framan af. Ég trúi satt best að segja ekki öðru en að hæstv. viðskrh. sé þeirrar skoðunar.

Ég hélt að það væri tiltölulega óumdeilt að það sé að breyttu breytanda betra að eignaraðildin sé mjög dreifð og enginn einn aðili, ég tala nú ekki um þann sem sjálfur er umsvifamikill í viðskiptalífinu á einhverjum sviðum, geti náð algerlega undirtökunum og ráðið ákvörðunum fjármálastofnunar eða stórs viðskiptabanka. Það er ekki heppilegt. Ég hélt að allir væru sammála um það. Ég er alveg viss um að hæstv. viðskrh. er eini viðskiptaráðherrann á Vesturlöndum sem er annarrar skoðunar, ef sú er raunin.

Aðferðin sem menn notuðu við að háeffa bankana og selja var í raun trygging fyrir því að einn aðili réði bankanum. Það er það sem ég kalla að afhenda einum aðila bankann. Ég endurtek það. Þetta var afhending, að vísu gegn endurgjaldi. Ég sagði aldrei að það ætti að vera afhent ókeypis. Þetta var afhent gegn endurgjaldi einum aðila. Einn aðili fékk Landsbankann og annar aðili fékk Búnaðarbankann. Það er staðreynd. Þetta var klæðskerasaumuð aðferð utan um helmingaskipti og hrossakaup stjórnarflokkanna í málinu.