Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:04:30 (521)

2003-10-14 15:04:30# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum talað um þetta áður og ég veit ekki hve lengi við getum talað um sölu bankanna. En staðreyndin er sú að það var farið mjög faglega í þá sölu og allt auglýst. Þar var allt uppi á borðinu.

Í fyrravetur gagnrýndi hv. þm. fyrst og fremst söluna á Búnaðarbankanum. Nú heyrist mér að það hafi snúist eitthvað við og Landsbankinn verði aðallega fyrir orrahríð hv. þm. En ég endurtek að við erum á opnum markaði.

Við getum ekki fest allt í lög. Það væri þó örugglega aðferð sem hv. þm. mundi fella sig mjög vel við, að hafa allt njörvað niður í lögum. Þegar hann talar um bankana þá er eins og hann álíti að þar sé allt í einum graut, hvort sem um er að ræða viðskiptabankastarfsemi eða fjárfestingarbankastarfsemi. Það vita allir allt en það er eins og þetta með kínamúrana, að hv. þm. viðurkennir ekki að þeir séu til staðar, miðað við ræðu hans.