Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:07:23 (523)

2003-10-14 15:07:23# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. kom inn á mörg atriði. Sum hver voru athyglisverð og má gjarnan ræða. Ég vil í fyrsta lagi koma inn á hugmyndir um að afhenda vöru. Venjan er sú að ef einhver kaupir vöru þá fær hann hana afhenta. Það er ekkert flóknara en það. Það er ekki verið að gefa mönnum neitt. (SJS: Ég sagði það aldrei.) Auðvitað átti að afhenda þeim bankana sem keyptu þá. Nema hvað?

Hv. þm. talaði líka um að ráðherra ætti að veita Fjármálaeftirlitinu tiltal. Þetta eru mjög hættuleg tilmæli til framkvæmdarvaldsins, að ráðherra veiti eftirlitsstofnun sem sett er á laggirnar og á að vera óháð tiltal. Að það komi tilmæli frá Alþingi um að ráðherra veiti slíkri eftirlitsstofnun tiltal. Það tel ég ekki vera góðan kost. Ég treysti Fjármálaeftirlitinu fullkomlega til að starfa samkvæmt lögunum og minn skilningur á lögunum er sá að bankar megi eiga í óskyldum rekstri tímabundið. Í mínum huga er það talið í mánuðum en ekki árum.