Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:08:49 (524)

2003-10-14 15:08:49# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvernig bankarnir sjálfir hugsa þetta eða hið fína nýyrði sem maður heyrir æ oftar úr þeirra munni, að vera umbreytingarfjárfestir. Það er alveg sérstakt nýyrði. Ég vek athygli þingmanna á því. Kannski væri ástæða til að halda námskeið í því hvað það þýðir. Ég sé að það stendur upp úr þessum miklu spekingum að þeir séu umbreytingarfjárfestar. Hvort sú umbreyting á að taka nokkra mánuði eins og hv. þm. Pétur Blöndal telur, skemmri eða lengri tíma, eins og mig grunar að bankarnir telji eðlilegt, skal ósagt látið.

Bankarnir hafa verið fyrirferðarmiklir sem eigendur að fyrirtækjum um býsna langan tíma í sumum tilvikum. Að vísu kunna stundum að koma upp þær aðstæður að þeim gengur erfiðlega að losa eign sína, eign sem þeir hafa þá leyst til sín til að gæta hagsmuna sinna og auðvitað getur maður haft samúð með þeim við slíkar aðstæður. En það gildir ekki þegar þeir hafa sjálfir, af fúsum og frjálsum vilja, keypt sig inn í fyrirtæki. Þá þarf að vera skýrara í hvaða tilgangi það er gert og að mínu mati er það ekki við hæfi að viðskiptabankar, ég tala ekki um ef það eru viðskiptabankar sömu fyrirtækja og þeir eru að kaupa í, geri svo.

Varðandi eftirlitsstofnanir þá tel ég auðvitað ekkert að því að hæstv. ráðherra ræði við Fjármálaeftirlitið um hina almennu framkvæmd eftirlitsins. Það er auðvitað þannig að Fjármálaeftirlitið starfar á grundvelli laga sem heyra undir ráðherrann. Ef ráðherra telur að Fjármálaeftirlitið sinni ekki skyldum sínum nógu vel þá flokkast það ekki undir íhlutun í innri málefni og sjálfa starfsemi Fjármálaeftirlitsins þótt ráðherrann biðji þar um fund og spyrji t.d. hvers vegna ekki eru settar takmarkandi reglur, ítarlegri og meira takmarkandi reglur, um hversu langt banki má ganga þegar hann kaupir í fyrirtæki, hversu lengi hann má eiga í því o.s.frv. Það er ekki íhlutun í eftirlit Fjármálaeftirlitsins í einstöku máli. Það væri að sjálfsögðu ekki við hæfi. Um það er ég sammála hv. þm.