Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:23:01 (530)

2003-10-14 15:23:01# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega leiðinlegt ef stjórn eins stærsta lífeyrissjóðs landsins fylgist ekki betur með og veit ekki til þess að til standi að selja eitt stykki banka. Og það sem meira er, hann var auglýstur til sölu. Vildi stjórnin ekki gerast kjölfestufjárfestir hefði hún getað keypt hann til skammtíma og selt hann svo aftur í hlutum. Þetta lá allt opið. Ef þetta var svona mikil gjöf gátu fleiri tekið þátt í að hirða hana. Þetta var nefnilega ekki gjöf. Bankinn var seldur dýrum dómum fyrir hátt verð og hann var meira að segja staðgreiddur, það var ekki lánað á einn eða neinn máta. Varðandi dæmið um fasteignir sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni sem einstaklingar kaupa, þá eru til einstaklingar, sérstaklega eldra fólk sem er að minnka við sig, sem staðgreiðir fasteignir með eigin fé sem það er búið að safna um ævina. Það eru því ekki allir sem kaupa með lánum.