Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:24:15 (531)

2003-10-14 15:24:15# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta gerist nú nokkuð flókin umræða. Bankarnir voru staðgreiddir. Er búið að greiða bankana? Er ekki enn verið að þrátta um verðið? Á ekki endanlegt verð að ráðast af afskriftum? Var ekki samið innbyrðis milli bankanna og gagnvart ríkisvaldinu um að ef afskriftir yrðu miklar í öðrum bankanum mundi hið sama gilda varðandi söluverðið gagnvart hinum? Er þetta ekki staðreynd? Þurfum við ekki bara að fá það upplýst hvað hafi verið greitt fyrir bankana og á hvaða forsendum? Ég get lýst því yfir að ég mun leita eftir upplýsingum um þetta í gegnum þingið.

Í sambandi við markaðsvæðingu bankanna og sölu þeirra þá var ekki farið með þá í venjulegt útboð á hlutabréfamarkaði, það var ekki gert. Auglýst var eftir kjölfestufjárfestum til þess að stjórnmálaflokkarnir gætu ráðskast með þessar eignir. Ég hef oft sagt að þar tel ég að Framsfl. beri að mörgu leyti þyngri ábyrgð eða haft frumkvæði í þessu máli. Ég hef aldrei skilið hvers vegna markaðssinnar eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal láta bjóða sér þetta en hv. þm. kemur núna í pontu til að verja það athæfi.