Raforkukostnaður fyrirtækja

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:26:30 (532)

2003-10-14 15:26:30# 130. lþ. 10.4 fundur 8. mál: #A raforkukostnaður fyrirtækja# þál., Flm. SigurjÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Flm. (Sigurjón Þórðarson):

Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem ég mæli hér fyrir er um að kannaður verði mismunandi raforkukostnaður eftir því hvar á landinu fyrirtæki eru staðsett og hvaða rafveita þjónar fyrirtækjunum er mjög mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að nýlega voru sett ný raforkulög sem fólu í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Sú breyting fól í sér að skilja á milli einkasöluþátta rafkerfisins, flutnings og dreifingar og þeirra þátta sem hægt er að koma samkeppni við, vinnslu og sölu. Áður en þær breytingar sem boðaðar eru koma til framkvæmda er rétt að kanna rækilega hvernig landið liggur og hver raforkukostnaður fyrirtækja er eins og staðan er nú. Sérstaklega er það mikilvægt vegna þess að enn er eitt aðalatriði breytinganna ófrágengið, þ.e. útfærsla á fyrirkomulagi orkuflutnings fyrir raforkumarkaðinn. Um það verkefni á 19 manna nefnd að skila tillögum. Nefndinni er einnig ætlað að móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingu raforku.

Eins og áður segir er því mikil nauðsyn á að kanna hver staðan er nú til þess að þær tillögur verði markvissar. Nauðsynlegt er að kanna hvernig megi bregðast við svo að samkeppnisstaða fyrirtækja verði ekki ójöfn og að fyrirtæki hrekist ekki úr byggðarlögum vegna hárra rafmagnsreikninga. Og síðan að hár rafmagnskostnaður á landsbyggðinni verði ekki til þess að fyrirtæki hætti við staðsetningu þar sem raforka er dýr.

Virðulegi forseti. Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002--2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:

a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.``

Síðan segir í e-lið:

,,Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.``

Virðulegi forseti. Ef framangreind meginmarkmið eiga að nást um að draga úr mismun á lífskjörum og jafna starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni, þá verður að tryggja að fyrirtækjum og einstaklingum sé boðið rafmagn á svipuðu verði alls staðar á landinu. Öllum má ljóst vera að fiskvinnsla eða brauðgerð sem þarf að greiða þriðjungi hærra verð en sambærileg fyrirtæki annars staðar á landinu stendur höllum fæti í samkeppni. Nauðsynlegt er að fara ítarlega ofan í og kanna hvort fyrirtæki greiði mjög mishátt verð fyrir raforkuna og hvað sé til ráða.

Virðulegi forseti. Gerð hefur verið úttekt sem bendir til mikils ójafnaðar. Samtök raforku-, hita- og vatnsveitna, Samorka, gerðu samanburð á afltöxtum allra rafveitna í landinu og hefur þar komið fram að mikill munur er á raforkuverði til fyrirtækja eftir því hvar þau eru á landinu.

Samorka setur upp dæmi sem sýna berlega að ótrúlega mikill munur er á því verði sem fyrirtæki greiða t.d. annars vegar á Snæfellsnesi sem Rarik þjónar og hins vegar í Reykjavík sem Orkuveita Reykjavíkur þjónar. Dæmi er tekið af fyrirtæki sem þarf að greiða 1.632.790 kr. á ári fyrir rafmagn á starfssvæði Rariks, t.d. á Blönduósi, en ef sama fyrirtæki væri staðsett í Reykjavík greiddi það einungis 1.252.648 kr. Munurinn er um 30%.

Nefndinni sem verður skipuð samkvæmt þessari ályktun ber að fara ítarlega yfir gjaldskrá og útreikninga og í framhaldinu að kanna hvort mishátt gjald á raforku skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja í landinu. Nefndinni væri síðan ætlað að leita leiða til úrbóta. Hér er um mál að ræða sem snertir einungis eitt ráðuneyti, þ.e. iðn.- og viðskrn., og ætti því að auðvelda úrlausn málsins að það er einungis á hendi eins ráðherra, hæstv. iðnrh., sem er yfirmaður raforkumála, samkeppnismála og byggðamála. Ég óska eftir að þessari þingsályktun verði vísað til iðnn. að lokinni fyrri umr.