Raforkukostnaður fyrirtækja

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:39:15 (537)

2003-10-14 15:39:15# 130. lþ. 10.4 fundur 8. mál: #A raforkukostnaður fyrirtækja# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi till. til þál. sem hér er flutt um raforkukostnað fyrirtækja af hv. flm. Sigurjóni Þórðarsyni og Kristjáni L. Möller er í sjálfu sér einfalt mál. Hún er tvískipt; annars vegar á að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að fara yfir mismunandi gjaldskrár orkuveitna og kanna hvort raforkukostnaður fyrirtækja sé mismikill eftir því hvaða orkuveitur þjóna þeim. Þessar upplýsingar ættu allar að vera til staðar og eru væntanlega til inni í ráðuneyti hjá hæstv. iðnrh. Í fyrsta lagi er minnsta mál að fá þær og í öðru lagi ætti hæstv. byggðamálaráðherra að hafa þetta á takteinum.

Hinn hluti tillögunnar snýr svo að því hvernig eigi að leiðrétta þá kerfislægu skerðingu sem verður á samkeppnisstöðu bæði fyrirtækja og almennrar búsetu sé mismunun til staðar.

Þetta mál er ekki nýtt á þingi, það hefur oft verið rætt og var mjög rætt sl. vetur við samþykkt nýrra raforkulaga.

Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er farin úr húsinu, virðulegi forseti, en ráðherrann kom hér í ræðu og lýsti því hvernig þetta umhverfi væri allt að breytast með þessum nýju raforkulögum sem voru samþykkt á Alþingi sl. vetur. Samkvæmt þeim á að færa markaðsvæðingu og einkavæðingu inn í raforkukerfið og hún telur að þetta eigi allt saman að leiða til betri vegar. Þeir voru þá býsna margir hér á þingi sem sögðu að þessi lagasetning væri fullkomin mistök, enda rökstuddu sumir þingmenn stuðning sinn með því að þetta hefði verið hluti af lagatilskipan Evrópusambandsins sem hefði láðst að sækja um undanþágu frá. Þetta hefðu verið kerfisleg og tæknileg mistök af hálfu þeirra sem fara með samskipti við Evrópusambandið og við sætum hér uppi nú með þessa löggjöf, og það væri ástæðan.

Lítum á hvað hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur. Í Kaliforníu var raforkukerfið t.d. einkavætt, fór á hausinn og ríkið varð að leysa það aftur til sín. Gríðarlegar rafmagnstruflanir urðu í markaðsvæddu raforkukerfi í Kanada, í norðurfylkjum Bandaríkjanna og stóðu ekki í nokkrar mínútur, heldur klukkutímum og jafnvel sólarhringum saman. Sama var upp á teningnum í Suður-Svíþjóð og Danmörku, þar var líka búið að markaðsvæða að hluta raforkukerfið og þar var líka gríðarlegt rafmagnsleysi og truflanir á rafmagni. Síðasta dæmið var svo Ítalía og Frakkland þar sem Ítalía nánast öll var rafmagnslaus í lengri tíma um daginn.

Þetta er það skipulag sem á að innleiða samkvæmt nýjum raforkulögum ef hæstv. iðnrh. fær að ráða ferð, gerum okkur grein fyrir því. Þetta er fyrirmynd hæstv. iðnrh. að raforkubúskap á Íslandi. Á Ísland sem er lítið eyríki að fara að feta í markaðsvæðingarspor þessara stórríkja sem lenda síðan uppi á skeri með starfsemi sína?

Það var fróðlegt sem orkubússtjóri Kaliforníu sagði hér í heimsókn sinni á Íslandi á dögunum. Hann er búinn að lifa tímana tvenna og hann varaði við því að einkavæða raforkukerfið, það væri hluti af grunnalmannaþjónustu sem allt atvinnulíf, búseta og lífskjör fólks byggðust á. Og að ætla að fara að setja það á einhverja uppboðsmarkaði væri fullkomið glapræði. Hann tók til orða á þann veg að hryðjuverk væru jú hættuleg og gætu truflað raforkukerfið og raforkudreifinguna en hryðjuverk væru smámunir á við einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkukerfisins. Og þetta er það kerfi sem hæstv. iðnrh. vill láta innleiða hér.

Ég tel þetta vera gríðarleg mistök, enda er nú verið að vinna að því hvernig megi hugsanlega milda hin skaðlegu áhrif af þessum raforkulögum sem sett voru sl. vetur að frumkvæði hæstv. iðnrh. Framsfl. Svona er nú þetta mál, virðulegi forseti.

Þessi litla þáltill. sem hér er flutt er bara til að draga fram í dagsljósið mun sem við jú vitum að er til staðar en við viljum fá hann tölulega fram, þá mismunun sem er á milli fyrirtækja og einstaklinga í verði og afhendingaröryggi og möguleikum á gæðum rafmagns. Við viljum einmitt hafa þessar tölulegu upplýsingar þegar við förum að takast á um þá tilhögun á dreifikerfinu sem mun væntanlega koma inn í þingið seinna í haust.

Ég tel mjög mikilvægt að fá öll atriði inn í umræðuna um raforkukostnað fyrirtækja, um raforkudreifinguna, því að þetta er fjöregg íslensku þjóðarinnar. Við megum ekki setja raforkukerfið og dreifingu raforku á uppboðsmarkað fjármálafyrirtækja. Við höfum alveg nærtæk dæmi um mismuninn, við þekkjum það frá umræðunni hér í þinginu fyrir tveimur árum þegar Sveitarfélagið Skagafjörður var knúið til þess, vil ég segja, að selja Rafveitu Sauðárkróks, vel rekið fyrirtæki sem þjónaði íbúum Sauðárkróks vel, til Rariks í staðinn fyrir að opinberir aðilar tækju á fjárhagsvanda sveitarfélagsins með öðrum hætti. Rarik er jú bara opinber aðili og þurfti að fá peningana frá ríkinu til þess að greiða út Rafveitu Sauðárkróks. Eftir að Rafveita Sauðárkróks var keypt af Rarik snarhækkuðu náttúrlega allir taxtar, margfölduðust hjá minni fyrirtækjum.

Þetta mál sem hér er hreyft er mjög mikilvægt inn í þessa umræðu og nauðsynlegt. Það væri þarft að hæstv. iðnrh., hæstv. ráðherra Framsfl., sem gengur svo öflugt fram nú í að einkavæða og markaðsvæða alla þá almannaþjónustu sem hæstv. ráðherra kemst yfir, mundi hlýða á umræðuna og taka hana til greina.

Við verðum að standa vörð um raforkukerfið okkar. Við megum ekki markaðsvæða það og einkavæða það og selja það á uppboðsmarkað. Það þurfa allir að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að firra okkur þeim óskapnaði ef af yrði. Við verðum öll að taka höndum saman.