Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:21:56 (541)

2003-10-14 16:21:56# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Það var alveg ljóst, virðulegi forseti, á hverju málflutningur minn byggði og sú gagnrýni sem ég hafði á þetta frv. Ég tel að ekkert sé óljóst í því.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talar um að það sé mikilvægt að vernda samkeppnina með öllum tiltækum ráðum. Það er kannski matsatriði hvað það er að ,,vernda samkeppni með öllum tiltækum ráðum`` en ég tel að það sé algjörlega ljóst að það að veita yfirvöldum, samkeppnisyfirvöldum, heimildir til þess að ráðast inn á heimili fólks sem gjarnan er saklaust af þeim áburði sem samkeppnisyfirvöld munu bera á viðkomandi aðila fari langt út fyrir réttlætanlegar aðgerðir við að ætla sér að tryggja samkeppni.

Auðvitað hljóta þessar heimildir að skarast við það sem ég nefndi áðan, friðhelgi einkalífsins. Og það er verið að ganga hér mjög fast og hart gegn þeim miklu réttindum sem 71. gr. stjórnarskrárinnar tryggir fólki. Ég get ekki séð að neitt hafi verið óljóst í þessu. Menn verða að hafa það í huga þegar þeir leggja svona til að það eru ekki bara stjórnendur fyrirtækjanna sem búa á þessum heimilum, það eru líka eiginkonur eða eiginmenn og það eru börn stjórnendanna og auðvitað skarast þetta allt saman. Þetta eru atriði sem ég hugsa að flutningsmenn frv. hafi ekki haft í huga þegar þeir sömdu það.