Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:23:49 (542)

2003-10-14 16:23:49# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig með þetta líf okkar og hagsmuni sem við oft og tíðum viljum vernda að það er ekki sjálfgefið að brotamenn séu einhleypir. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem taka eignir ófrjálsri hendi séu einhleypir. Það er ekkert sjálfgefið þegar lögregluyfirvöld og ýmsir sem hafa fengið það hlutverk að vernda tiltekna hagsmuni þurfa að beita mjög alvarlegum úrræðum. Húsleit er mjög alvarlegt úrræði. Ég tek alveg heils hugar undir það. Það er ekki sjálfgefið að brotamenn séu einhleypir; þegar um er að ræða alvarlegar líkamsárásir sem við teljum þess virði að vernda gegn og hægt er að gera húsleit út af er ekki sjálfgefið að ekki sé annað fólk á heimilinu.

Við metum það hins vegar oft og tíðum svo að þetta séu það mikilvægir hagsmunir að við viljum vernda þá og veitum þess vegna þessar heimildir.

Ég vil þó segja að þrátt fyrir að mér finnist, eins og ég sagði áðan, mig skorta talsvert til þess að átta mig á þeim grundvallarhugmyndum sem hv. þm. byggir á finnst mér samt að einhverjar breytingar hafi orðið hjá sjálfstæðismönnum hvað þetta varðar almennt. Fyrir nokkrum árum voru samþykkt hér lög um Póst- og fjarskiptastofnun og þar kom þessi umræða upp. Í því frv. sem síðar varð að lögum --- það frv. var borið fram af hv. þm. Halldóri Blöndal --- þarf Póst- og fjarskiptastofnun ekki einu sinni úrskurð dómstóla til þess að fara í húsleit. Ég skynja það þó hjá þessum unga hv. þm. sem hér er kominn inn að það eru einhverjar breytingar á hugmyndum um vernd og friðhelgi einkalífsins sem hafa náð fótfestu í þingflokki Sjálfstfl.

En ég verð að segja, virðulegi forseti, og ítreka að það eru einfaldlega hugmyndir okkar í Samf. að samkeppni sé svo mikilvæg að hana beri að vernda og að í því skyni eigi að veita þær heimildir sem við leggjum hér til. Það er grundvallarhugmynd okkar í þessu máli.