Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:26:07 (543)

2003-10-14 16:26:07# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að heyra að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson beri mikla virðingu fyrir samkeppninni og vilji hag hennar sem mestan. Ég deili þeirri skoðun. Ég tel samt að við verðum að tryggja þá ríku hagsmuni sem felast í friðhelgi einkalífsins. Með samþykkt þessa frv. er raunveruleg hætta á því að réttindi friðhelgi einkalífs þeirra sem ekkert koma að málum en slík húsleit beinist að verði brotin. Það er einfaldlega þannig.

Ég get ekki betur séð en að ef menn ætla að fara að framkvæma þær hugmyndir sem fram koma í þessu frv. muni þeir komast að því að réttur fólks sem ekkert kemur að þeim málum sem verið er að rannsaka sé brotinn. (LB: Vill þingmaðurinn afnema húsleitarheimildir almennt?) Nei, nei, þingmaðurinn vill ekkert afnema húsleitarheimildir almennt, þingmaðurinn hefur aldrei haldið því fram. Ég er bara að segja að ég vara við því að eftirlitsiðnaðinum eins og ég leyfi mér að kalla hann verði veittar of víðtækar heimildir til þess að ráðast inn á heimili fólks sem jafnvel er saklaust og hefur ekkert um þau mál að segja sem verið er að rannsaka.