Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:28:34 (544)

2003-10-14 16:28:34# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er mjög eðlilegt að samkeppnislög komi til umfjöllunar á hv. Alþingi nú eftir að öll þau mál hafa verið svo mjög til umfjöllunar, eins og raun ber vitni, í tengslum við rannsókn á meintum lögbrotum olíufélaganna. Þau mál eru til rannsóknar og munu verða áfram en í tengslum við þá rannsókn hafa komið upp ákveðnir hnökrar sem eru hugsanlega á löggjöfinni. Þess vegna hef ég skipað nefnd, eins og komið hefur fram opinberlega, í samráði við dómsmrh. Nefndin hefur það hlutverk að fara yfir lögin og skila greinargerð um það að hvaða niðurstöðu hún kemst, hvort hún hugsanlega kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að skerpa lögin þannig að tilvik eins og það sem kom upp sl. sumar komi ekki upp aftur. Það er ekki gott að það sé ekki algjörlega skýrt í hvaða farveg mál fara og hvert hlutverk hverrar eftirlitsstofnunar er í sambandi við að rannsaka mál sem þetta. En ég vonast sem sagt til að þessi nefnd vinni hratt og skili fljótt niðurstöðu um það hvað hún leggur til í þeim málum. Ég tel að í rauninni sé komið til móts við það sem farið er fram á í 2. gr. frv. með þeirri vinnu.

Hvað varðar 1. gr. er vissulega rétt að það væri hörð aðgerð að ráðast inn í fyrirtæki. Það er gengið lengra ef hugsanlega væru sett um það lög að heimilt væri að ráðast inn á heimili manna, heimili forsvarsmanna fyrirtækja.

Í tengslum við þá miklu umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu í tengslum við rannsókn á olíufélögunum var unnin mikil greinargerð í viðskrn. um það hvort lögin sem við styðjumst við, íslensk samkeppnislög, séu á einhvern hátt frábrugðin því sem almennt gerist um þetta mál eða ekki. Niðurstaðan er sú að íslensku lögin séu mjög sambærileg við það sem um er að ræða í Evrópu, að einhverju leyti strangari en líka að öðru leyti veikari. Það þarf t.d. ekki í öllum löndum dómsúrskurð til þess að heimilt sé að ráðast inn í fyrirtæki en þannig er það hér. Hvað varðar það að ráðast inn á heimili eða að hugsanlega megi fara fram húsleit á heimilum stjórnenda fyrirtækja hef ég spurnir af því að slík tilskipun gæti verið í farvatninu. Hún er a.m.k. ekki orðin til núna en að sjálfsögðu eru þessi mál öll í þróun og það er eins innan Evrópusambandsins, þar er um það fjallað hvort stíga skuli það skref. Ég mun ekki beita mér fyrir frumkvæði í þeim efnum, að slík lög verði sett hér á landi, en ég tel mikilvægt að við fylgjumst vel með því sem er að gerast í Evrópu á þessu sviði. Það er ekki bara af áhuga sem við fylgjumst með því, heldur er það náttúrlega skylda okkar. Komi til þess að slík tilskipun verði sett eigum við ekki annarra kosta völ en að lögleiða hana hér á landi.