Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:48:17 (549)

2003-10-14 16:48:17# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að enginn ágreiningur sé í þessum sal, reyndar er ekki svo fjölmennt hér í salnum að það sé ástæða til að efna til ágreinings um þetta mál. Ég held að um það sé enginn ágreiningur að það er alvarleg aðgerð að ráðast inn á heimili og leita sönnunargagna vegna meintra brota. Og þá skiptir engu máli hvers eðlis brotið er eins og ég sagði áðan.

Hins vegar er það þannig að Samkeppnisstofnun hefur verið falið að vera eftirlitsaðili með því að samkeppnislög séu ekki brotin. Henni er falin rannsókn á slíkum brotum og hún verður að hafa þau tæki sem þarf eins og öðrum aðilum sem er falin rannsóknarskylda um meint brot gegn lögum. Hún verður að hafa þau tæki sem þarf, en eins og þarna kemur fram þarf hún að sjálfsögðu að sækja til dómstóla, fá dómsúrskurð áður en hún getur beitt þeim tækjum rétt eins og aðrir sem hafa þau í höndunum.