Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:35:46 (559)

2003-10-14 17:35:46# 130. lþ. 10.6 fundur 10. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (brottvísun og heimsóknarbann) frv., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef svo sem engu við að bæta, vil eingöngu þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir þær undirtektir sem málið fær hér. Ég get tekið undir þau orð hennar að málið er af því tagi að aðstæður okkar hér á Íslandi kalla á að það sé skoðað hvort ekki sé hægt að færa hlutina til betri vegar eins og hér er lagt til. Ég lít á það sem mikilvæga stuðningsyfirlýsingu hv. þingmanns við málið sem hún sagði og treysti því, eins og ég sagði áðan, að málið fái vandaða meðferð hjá hv. allshn. Ég geri ráð fyrir að það verði sent út til umsagnaraðila og það verði sannarlega fróðlegt að fá að lesa þær umsagnir. Ég treysti því að þegar málið kemur til 2. umr. fylgi því öflug fylgigögn og síðan að hv. Alþingi geti tekið afstöðu til málsins áður en þessi vetur er allur.