Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:43:36 (561)

2003-10-14 17:43:36# 130. lþ. 10.7 fundur 11. mál: #A virðisaukaskattur# (hljóðbækur) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fá að þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir það frumkvæði sem hann hefur sýnt í að flytja þetta litla frv. sem hér er til umfjöllunar og raunar líka að rifja upp þá sorglegu þætti í menningarsögu okkar sem eru förgun á upptökum og aðgæsluleysi manna við að varðveita merka hluti úr sögu Ríkisútvarpsins. Það er rétt að halda til haga hlut Knúts Skeggjasonar í því að stelast til þess að bjarga þar undan einni og einni upptöku sem við búum að því að eiga nú síðar meir.

Virðulegur forseti. Það er kannski rétt að ég taki fram við þessa umræðu að í henni á ég nokkurra hagsmuna að gæta þar sem ég er sjónskertur sjálfur og félagi í Blindrafélaginu sem er, eða öllu heldur var, til skamms tíma útgefandi á hljóðbókum, og svo er ég stjórnarmaður í Blindrabókasafni Íslands sem sömuleiðis hefur gefið út hljóðbækur. Menn verða að taka orðum mínum með þeim fyrirvara að í málinu á ég auðvitað talsverðra hagsmuna að gæta, bæði sem neytandi og vegna starfa minna í Blindrafélaginu og fyrir Blindrabókasafnið. Ég verð þó að segja það, virðulegur forseti, að ég sakna þess að sjá ekki stjórnarliðana flykkjast í salinn þegar við erum að fjalla um verðugar skattalækkanir eins og þá sem hér er til umræðu. Það virðist einhvern veginn sem áhugi þeirra á skattalækkunum hafi dvínað nokkuð eftir því sem leið fram yfir kosningar, virðulegur forseti.

Ég held að það þurfi í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta litla frv., svo sjálfsagt réttlætismál sem það er. Við höfum ákveðið að skattleggja bækur og bókaútgáfu í lægra skattþrepi til þess að styrkja og efla útgáfu íslenskra bóka og bóka á íslensku. Það hefur verið túlkun manna að sú skilgreining ætti ekki við um hljóðbækur og menn hafa um langt árabil neitað að leiðrétta þetta litla atriði. Þó er það þannig að það eina sem skilur hljóðbókina frá hinni prentuðu bók er að fyrir hljóðbókina er minni markaður en fyrir hina prentuðu og framleiðslukostnaður hljóðbókarinnar er meiri. Þannig eru í raun ríkari ástæður fyrir hið opinbera til þess að ívilna hljóðbókum með lægri sköttum eða gjöldum heldur en hinni almennu ,,svartletursútgáfu`` eins og við, hin sjónskertu, köllum bækurnar sem þið hin lesið, virðulegur forseti.

Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að hér er auðvitað ekki um mikla bókasölu eða bókaútgáfu að ræða. Þó hafa mjög margir á síðari árum verið að átta sig á því að hljóðbækur eru ekki bara eitthvað sem hentar blindum og sjónskertum, heldur sé mikill menningarauki að slíkum bókum og að þeirra geti sjáandi líka notið, hvort sem er við dagleg störf eða við akstur eða aðra iðju. Þetta eru ekki nema einhver hundruð, í mesta lagi kannski eitt, tvö þúsund, stykki af bókum sem seld eru á þessu formi árlega og þess vegna um hverfandi tekjur að ræða fyrir ríkissjóð og í rauninni ekki annað en sjálfsagt sanngirnismál að þeir sem kjósa að hlusta á upplestur bókar þurfi ekki að greiða af þeim upplestri hærri skatta en þeir sem hafa augu til að sjá textann og lesa hann á pappír.