Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:50:45 (563)

2003-10-14 17:50:45# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

Í frv. er lagt til að við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: ,,Greiða skal orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.``

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sem voru samþykkt á árinu 2000 eða komu til framkvæmda þá, er ekki að finna ákvæði sem kveður á um að greiða skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Á þetta hefur verið látið reyna fyrir sérstakri úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála og staðfesti hún fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að reikna ekki orlofslaun á greiðslur vegna orlofstöku til kæranda í fæðingarorlofi. Í úrskurðinum segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sá greinarmunur sem gerður er á rétti til orlofstöku og rétti til orlofslauna í framangreindum lögum styður þá niðurstöðu að í 2. mgr. 14. gr. ffl. felist fyrirmæli um áunninn rétt til orlofstöku en ekki rétt til orlofslauna.``

Þetta hefur það í för með sér að einstaklingar í fæðingarorlofi fá ekki notið almennrar orlofstöku nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Í slíkum tilvikum grafa réttindi á einu sviði undan réttindum á öðru sviði.

Þeirri lagabreytingu sem hér er gerð tillaga um er ætlað að tryggja að allir þeir sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs eigi óskertan rétt í sumarorlofi.

Hæstv. forseti. Nú er það svo að mér er fullkunnugt um að í sumum tilvikum hefur verið samið um rétt til greiðslna í orlofi en í öðrum tilvikum hefur svo ekki verið gert. Það á almennt við um hinn almenna vinnumarkað. Ég held að það geti ekki hafa verið markmið löggjafans að hafa þessi réttindi af fólki, sem oft og tíðum er á mjög litlum launum. Mér er kunnugt um póstmenn á lágum launum sem hafa nýtt sér fæðingarorlofið en síðan vaknað upp við þann vonda draum að sumarleyfið var ekki til, að rétturinn til þess var ekki til, ekki til greiðslna í sumarfríinu. Ég held að þetta sé nokkuð sem verður að taka á með lagabreytingu. Ég geri mér grein fyrir því að ef slíkt næðist fram í samningum þá væri það að sjálfsögðu góðra gjalda vert en ég held að löggjafinn þurfi að grípa hér inn í til þess að jafna hér stöðu manna, og þá sé ég ekki aðrar færar leiðir en að þessar greiðslur verði greiddar úr Fæðingarorlofssjóði.

Um þetta ætla ég ekki að hafa langt mál nú, fagna því að þetta komist á dagskrá hér þannig að það geti farið til umsagnar hjá þeim sem gerst þekkja til þessara mála og síðan vona ég að það fái skjóta afgreiðslu í félmn. þingsins, en ég legg til að frv. verði vísað þangað til frekari vinnslu.