Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:08:06 (567)

2003-10-14 18:08:06# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hefur talsvert verið unnið í þessu máli í félmrn. í sumar og haust. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan hefur hópur fólks verið að fara yfir framkvæmd laganna, það atriði sem hér er til umræðu meðal annarra. Eins og ég veit að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er fullkunnugt um hefur ásóknin í greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verið meiri en reiknað var með í upphafi sem er út af fyrir sig jákvætt því að það segir okkur að lögin virki og þau hvetja feður í meira mæli til að taka fæðingarorlof heldur en kannski ráð var fyrir gert. Það stefnir hins vegar í að Fæðingarorlofssjóður verði í fjárþurrð á miðju árinu 2005 en ég tel óhjákvæmilegt að skoða málið allt í samhengi, ekki einungis einn þátt þess. Það tekur þennan tíma en ég vænti þess að niðurstaða fáist fyrir árslok.