Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:09:22 (568)

2003-10-14 18:09:22# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það virðist vera ógjörningur að fá hæstv. félmrh. til að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Ég spurði um þann mismun sem nú ríkir á vinnumarkaðnum varðandi þessar greiðslur, hver afstaða ráðherrans væri til þess. Ég spyr líka: Óttast hæstv. ráðherra ekki að ef þessi mismunun heldur áfram, þannig að þeir sem eru á almenna markaðnum hafa þriggja vikna skemmra fæðingarorlof en þeir sem eru hjá hinu opinbera, verði það til þess að feður eða það foreldri sem hefur hærri greiðslurnar hætti að taka það fæðingarorlof sem það hefur rétt á eða a.m.k. mjög skert af því að það bíður þeirra þá að taka skert orlof eða orlofsgreiðslur? Þetta mál er ekki hægt að afgreiða þannig að setja það í samhengi við stærra mál þ.e. hvort eigi að fara að breyta viðmiðunum í fæðingarorlofslögunum að því er varðar bótafjárhæðir eða almennt varðandi fjárvöntun úr sjóðnum af því að ásóknin var meiri í greiðslurnar en menn töldu í upphafi. Það er auðvitað bara gleðiefni að ásóknin sé meiri af því að þetta er eitt af því sem síðasta ríkisstjórn getur helst státað sig af varðandi félagslegar umbætur á síðasta kjörtímabili, það er þessi fæðingarorlofslöggjöf.

Nú hefur komið fram verulegur annmarki á löggjöfinni að því er þennan þátt varðar og veruleg mismunun.

Herra forseti. Ég óska þess að hæstv. ráðherra svari því hvað hvað hann telur um þá mismunun og hvort hann deili ekki ótta með mér um það að þetta muni verða til þess að feður á almenna markaðnum muni síður taka sér fæðingarorlof þegar þeir búa við það að fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á er þremur vikum styttra en hjá öðrum.