Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:13:08 (570)

2003-10-14 18:13:08# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og þá varðandi það hvort borga eigi orlof á orlof. Ég vil minna á að markmið þessara laga var að auka jafnrétti milli kynja. Það var meginmarkmiðið. Áður en lögin voru sett voru konur þær einu sem fengu fæðingarorlof og þær fengu mjög lága upphæð. Afleiðingin af því varð sú að þar sem konur hurfu úr starfi urðu þær einfaldlega dýrari fyrir fyrirtæki þar sem ráða þurfti í staðinn fyrir þær og allt slíkt. Þær voru einfaldlega dýrari en karlarnir.

Markmið þessara laga var að gera karlmenn jafndýra fyrir fyrirtækin og konur og það hefur tekist, frú forseti. Kannanir bæði kjararannsóknarnefndar og VR sýna að laun kvenna hafa hækkað meira en laun karla og þó að hægt miði í jafnréttisátt er það samt í rétta átt á meðan við fáum annars staðar fréttir um það, t.d. frá Noregi, að launamunurinn þar sé að vaxa. Áhrif þessara laga eru því ótvíræð.

[18:15]

Þau hafa líka haft þau áhrif að eldra fólk á auðveldara með að fá vinnu heldur en áður var einfaldlega vegna þess að yngra fólk sem á barneignir í vændum er orðið dýrara. Ég tel að það séu jákvæð aukaáhrif af þessari lagasetningu að eldra fólk sem átti oft mjög erfitt með að fá vinnu á nú orðið eitthvað auðveldara með það, bæði karlar og konur. Þetta er sem sagt afleiðing af þessum lögum.

Þessi lög um fæðingarorlof voru afskaplega góð. Þau kipptu Íslendingum frá því að vera aftastir á merinni í Norðurlandasamanburði í það að vera fremstir. Þegar þessi 80% af launum voru tekin inn í dæmið þá er spurningin: Af hverju 80%? Af hverju ekki 90%. Af hverju ekki 100%? Af hverju ekki 75% eða 60%? Það var vegna þess að menn töldu nauðsynlegt að hafa 80% til þess að lokka karlmenn til að vera heima hjá börnunum sínum, og það hefur tekist. Það hefur tekist með slíkum ágætum að Fæðingarorlofssjóður á við fjárhagsvanda að glíma.

Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort nauðsynlegt hafi verið að hafa beituna svona girnilega, hvort ekki megi lækka þessa prósentu í 75% eða 70%, en ekki ræða um að hækka þetta eins og flutningsmenn þessa frv. gera ráð fyrir. Það tel ég algjöran óþarfa vegna þess að markmið laganna hafa náðst. Ég vil að menn skoði það að þessi prósenta verði lækkuð.

Það er jú einu sinni þannig, frú forseti, sem mjög margir þingmenn gleyma, að það er alltaf einhver sem greiðir bæturnar. Það er alltaf einhver sem greiðir. Hinir vinnandi í landinu greiða. Það á ekki að hafa bætur hærri en nauðsynlegt er. Ef árangur næst til jafnréttis karla og kvenna með 80% og hugsanlega með 75% þá eiga menn að horfast í augu við það. Það er ekkert markmið að bætur séu háar.

Mér finnst undarlegt að sjá svona frv., og ábyrgðarlaust af flutningsmönnum að leggja það fram, um hækkun á þessum bótum á sama tíma og það hefur sýnt sig að lögin ná markmiði sínu. Það hefur sýnt sig að bæturnar hafa stórhækkað miðað við það sem áður var, miðað við það sem var þegar þetta var einhver pínulítil tala. Og líka vegna þess að þetta er jú greitt af einhverjum finnst mér undarlegt að horfa upp á að menn leggja til auknar bætur, aukin útgjöld, aukna skattlagningu á launþega þessa lands því að það eru þeir sem greiða þetta. Tryggingagjaldið er gjald á laun allra Íslendinga og engu máli skiptir hvort fyrirtæki greiða það eða hvort launin séu hækkuð um tryggingagjaldið og launþeginn greiði það. Þetta er flatur skattur á öll laun í landinu og það sem menn vilja með þessu frv. er hreinlega að hækka þessar álögur á alla launþega.

Nú vill svo til að flutningsmaður frv. er forustumaður launþegahreyfingar. Hann er sem sagt að krefjast þess og vill að álögur á launþega, á sína félagsmenn, séu hækkaðar að óþörfu að mínu mati.

Menn hafa líka talað um að óeðlilegt sé að hæstu laun fái óskaplega miklar bætur. 80% af milljón eru 800 þús. og menn hafa séð ofsjónum yfir því. En þá vil ég benda mönnum á markmið laganna sem er að gera karlmenn jafndýra og konur. Ef menn setja þak á þessar greiðslur þá eru þeir að segja um leið að þeir vilji ekki gera kvenforstjóra jafndýra og karlforstjóra. Þeir vilja þá ekki að konur verði forstjórar yfirleitt. Það eru þeir að segja. Ég tel því mjög mikilvægt að ekki sé þak á þessu.

Hins vegar gæti ég alveg séð fyrir mér að þessi 80%, sem voru á sínum tíma skot út í loftið, yrðu lækkuð því að það er ýmiss konar sparnaður fólginn í því að sækja ekki vinnu, samanber bara t.d. ferðir á vinnustað, klæðnað og annað slíkt. Svo geta menn gert ýmislegt heima hjá sér sem sparar kostnað. Það er því ekkert sem segir að bæturnar þurfi að vera 80%, enda er það þekkt t.d. í lífeyriskerfum að menn stefna ekki svona hátt í bótum heldur eitthvað á bilinu 60--70%. Ég legg til að hæstv. félmrh. skoði þann þátt líka og hafi hugrekki til þess með það í huga að launþegar þessa lands borga brúsann á endanum. Það þarf auðvitað að hafa hugrekki til þess að standa á móti kröfum um auknar bætur sem alltaf eru uppi í hinum háu þingsölum á sama tíma og menn gleyma því að þessar sömu bætur eru greiddar af landslýð öllum og aðallega launþegum.