Félags- og tómstundamál

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:35:32 (574)

2003-10-15 13:35:32# 130. lþ. 11.1 fundur 58. mál: #A félags- og tómstundamál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Afskaplega margt gott er gert í því æskulýðsstarfi sem unnið er hjá grasrótinni hjá félagasamtökum af ýmsu tagi en það er skoðun mín að kannski hafi stefnumörkun og eftirfylgni yfirvalda ekki verið sem skyldi. Við höfum kannski leyft stefnumótunarvinnunni að dankast. Við höfum látið hjá líða að endurskoða löggjöf okkar um æskulýðsmál og nú er svo komið að hún má teljast úrelt. Við höfum dregist mikið aftur úr nágrannalöndum okkar þrátt fyrir alla möguleika okkar á að fylgjast með öflugri stefnumótunarvinnu sem farið hefur fram á vettvangi Evrópusambandsins og eins og ekki síður á vettvangi Evrópuráðsins en þar hefur verið unnið öflugt starf á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er afar mikilvægt, frú forseti, að við færum okkur í nyt það starf sem þar hefur verið unnið.

Ég leyfi mér að halda því fram að menntmrn. hafi ekki sinnt skyldum sínum nægilega vel í þessu tilliti. Æskulýðsmálin hefðu margra hluta vegna átt að vera forgangsmál undanfarin ár en hafa ekki verið það. Það er alveg ljóst að vandi sá sem steðjar að börnum og ungmennum verður ekki allur leystur í skólanum. Þótt mikið og öflugt tómstundastarf sé í flestum og trúlega öllum skólum landsins, þá geta skólarnir ekki verið ábyrgir fyrir t.d. því að 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé virt en hún fjallar um rétt ungmenna og barna til að mynda sér skoðanir og að þau fái tækifæri til að láta þær skoðanir í ljósi. Með barnasáttmálanum er skilgreind ábyrgð stjórnvalda til að sjá ungmennum fyrir tækifærum til að vera virk í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu. Þannig þurfum við að viðurkenna formlega að til sé önnur menntun en sú sem skólinn veitir. Á erlendu tungumáli hefur þetta verið kallað ,,Lifelong Learning`` þ.e. aðferð til að viðurkenna það að börn og ungmenni eru að læra frá vöggu til grafar.

Ástandið í þessum málaflokki á aldursbilinu 16--25 ára er sérstaklega alvarlegt og það má tengja beint við mikið brottfall úr skóla. Mat mitt er það að yfirvöldum hafi ekki tekist nægilega vel að hlúa að valkostum ungmenna í þessu sambandi. Hér höfum við ekki lýðskóla eða handverksskóla í sama mæli og þekkist í nágrannalöndum okkar og segja má að unglingar sem eiga erfitt með að fylgja jafnöldrum sínum í námi fái ekki næga valkosti til að nýta hæfileika sína og getu í æskulýðs- eða tómstundastarfi nema kannski á íþróttasviðinu.

Þá erum við kannski komin að jafnræðisreglunni sem er eðlilegt að við skoðum í þessu sambandi milli íþróttamála annars vegar og annarra æskulýðs- og tómstundamála hins vegar. Í vor kom út öflug skýrsla um stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi og það er tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. menntmrh. sem hljóðar svo:

Hverjar voru helstu tillögur nefndar sem vann að úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi og hvernig hyggjast stjórnvöld nýta sér niðurstöður nefndarinnar?