Félags- og tómstundamál

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:38:55 (575)

2003-10-15 13:38:55# 130. lþ. 11.1 fundur 58. mál: #A félags- og tómstundamál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Spurt er: ,,Hverjar voru helstu tillögur nefndar sem vann að úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi og hvernig hyggjast stjórnvöld nýta sér niðurstöður nefndarinnar?``

Þetta mál er þannig vaxið að á haustmánuðum 2002 skipaði ég nefnd til að gera úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks hér á landi og skilaði nefndin eins og hér kom fram viðamikilli skýrslu á vormánuðum 2003. Skýrslan var kynnt á málþingi sem haldið var í Borgarholtsskóla 29. mars sl. er ráðuneytið stóð fyrir ásamt æskulýðsráði ríkisins, sjö æskulýðssamtökum og samtökum félagsmiðstöðva. Skýrslan hefur verið send hv. alþm., sveitarstjórnum, félagasamtökum og fleirum.

Meðal þess sem nefndin bendir á í skýrslunni er að þátttaka ungs fólks í félags- og tómstundastarfi er einn af hornsteinum uppbyggilegrar þátttöku þeirra í samfélaginu, að uppeldislegt gildi félags- og tómstundastarfs er mikið en þátttaka í starfi af þessu tagi kennir ungu fólki að vinna saman og taka ákvarðanir í samstarfi við aðra. Að í félags- og tómstundastarfi fer jafnframt fram þjálfun í framkomu á fjöldavettvangi og í tjáningu skoðana sem er einstaklingunum gott veganesti í lífi og starfi. Að áhersla félags- og tómstundasamtaka á sjálfboðavinnu kennir ungu fólki ósérhlífni og störf í þágu hópsins og að skipulegt félagsstaf eykur þroska ungs fólks og virðist einu gilda um hvað starfið í sjálfu sér snýst.

Í þessum aðalniðurstöðum má nefna að lokum að þátttaka í félags- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnagildi og stemmir stigu við ýmiss konar frávikshegðun ungs fólks. Kannanir benda til þess að yfir 60% nemenda í 9. og 10. bekk séu virkir þátttakendur í félags- og tómstundastarfi. Í framhaldsskólunum er þetta hlutfall um 46%. Margir hafa lýst áhyggjum yfir því að þátttaka í starfi frjálsra félagasamtaka hafi staðið í stað eða minnkað. Í þessu ljósi leggur nefndin til að komið verði á nýju samstarfi við Landssamband æskulýðsfélaga, að áhersla verði lögð á langtímaæskulýðsrannsóknir og að lög um æskulýðsmál verði rannsökuð.

Framlög ríkisins til æskulýðsmála jukust um 265% að raungildi milli áranna 1994 og 2003. Í fjárlögum ársins 2003 eru 114 millj. kr. veittar til Landssamtaka æskulýðsfélaga og verkefna á sviði félags- og tómstundamála.

Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi æskulýðsrannsókna og að stuðlað sé að framkvæmd langtímaæskulýðsrannsókna. Framlög sveitarfélaga til félags- og tómstundamála voru um 1 milljarður kr. árið 2001. Framlög sveitarfélaga til æskulýðsmála jukust um 51% að raunvirði milli áranna 1994 og 2001.

Í skýrslunni er bent á að ýmsir aðilar sem standa fyrir starfsemi fyrir börn og ungmenni kvarti undan því að sveitarfélög séu í samkeppni við frjáls félög. Í lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er kveðið á um að sveitarfélögin greiði kostnað við félagsstörf nemenda í grunnskólum. Áður greiddi ríkið til þessarar starfsemi eftir nokkuð flóknum reglum sem miðuðust m.a. við ákveðna upphæð á nemanda og tímakaup kennara en þá er ég að vitna í lög um grunnskóla, nr. 63/1974. Í fjárlögum styrkir ríkið landssamtök æskulýðs- og íþróttafélaga.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 2004 er lagt til að fjármunir verði settir í tómstundasjóð og æskulýðssjóð þar sem æskulýðsfélög og æskulýðssamtök geta m.a. sótt til menntunar og þjálfunar félagsmanna, forustumanna og annarra verkefna, svo sem þróunar og nýjunga. Gert er ráð fyrir að fjárframlag til sjóðsins verði 6 millj. kr. á ári en að sjálfsögðu er þetta háð þeirri vinnu sem fram fer á Alþingi varðandi fjárlagafrv.