Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:51:06 (579)

2003-10-15 13:51:06# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Þegar spurt er á hvern hátt ríkisstjórnin nálgast það verkefni sem getið er í stefnuyfirlýsingu hennar, að huga að lækkun endurgreiðslubyrði námslána, þá er svarið á þessa lund:

Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí sl. þá er það vissulega eitt af markmiðum stjórnarinnar að Lánasjóður ísl. námsmanna gegni áfram því mikilvæga hlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Það er sérstaklega kveðið á um það í stefnuyfirlýsingunni að hugað verði, eins og réttilega kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að því að finna leiðir til að lækka endurgreiðslubyrði námslánanna og að lög um sjóðinn verði endurskoðuð.

Eins og kunnugt er hafa verulega umbætur orðið á Lánasjóði ísl. námsmanna á síðasta áratug. Markvisst hefur verið unnið að því að treysta fjárhagslegan grundvöll sjóðsins en það er grundvallaratriði að þessi sjóður styðjist við traustan fjárhagslegan grunn. Án traustrar fjárhagslegrar undirstöðu væri sjóðnum ómögulegt að rækja það meginhlutverk sitt að tryggja öllum tækifæri til náms.

Staða Lánasjóðs ísl. námsmanna er traust og í nýútkominni skýrslu OECD um menntamál kemur fram að Ísland, Nýja-Sjáland og Svíþjóð leggi þjóða mest í námslán auk þess sem þessi lönd eru einnig með hæsta innritunarhlutfall á háskólastigi af OECD-löndunum.

Núverandi stjórnarflokkar hafa áður stigið stór skref í þessa átt. Þann 26. maí 1997 samþykkti Alþingi frv. þáv. menntmrh. um að lækka endurgreiðslubyrðina mjög verulega, þ.e. úr 7% í 4,75%. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að huga að því hvort lækka megi endurgreiðslubyrðina enn frekar en þegar hefur verið gert. Rétt er að taka fram að engin formleg skref hafa verið stigin enda er að mörgu að hyggja áður en ráðist verður í svo veigamikla breytingu á högum sjóðsins. Ýmsir möguleikar eru til að lækka raunverulega endurgreiðslubyrði námslána, t.d. að lækka endurgreiðsluhlutfallið, taka tillit til endurgreiðslna í útreikningi vaxtabóta eða draga hluta endurgreiðslu frá skatti. Fleiri möguleika mætti skoða í þessu sambandi en allir eru þeir þess eðlis að þeir kalla á lagabreytingar og áhrif þeirra geta orðið mismunandi.

Í viðleitni sinni til að treysta fjárhagslegan grundvöll lánasjóðsins hefur ríkisstjórnin fylgt þeirri ábyrgu reglu að leggja lánasjóðnum til það fé sem hann þarf til að standa undir framtíðarskuldbindingum sínum. Miðað við útreikninga Ríkisendurskoðunar sést að miðað við núverandi lánskjör þarf ríkissjóður að leggja lánasjóðnum til um 49% af útlánum sjóðsins auk rekstrarkostnaðar. Miðað við núverandi endurgreiðslukjör þarf einstaklingur með 250 þús. kr. mánaðartekjur að greiða um 11.875 kr. í afborgun af námsláni sínu á mánuði.

Í gildistíma eldri laga um sjóðinn, þ.e. laga nr. 72/1982, þar sem endurgreiðslubyrði var lægri, eða 3,75%, var áætlað að framlag ríkissjóðs þyrfti að nema um 66% af útlánum sjóðsins. Ef endurgreiðslubyrði lánanna væri lækkuð nú þannig að framlagsþörf sjóðsins hækkaði, t.d. um 10% í 59% af útlánunum, yrði útgjaldaaukning ríkissjóðs um 660 milljónir árlega miðað við núverandi útlán sjóðsins. Er þá ekki litið til þess hvort lækka eigi endurgreiðslur hjá þeim sem þegar hafa tekið lán á núverandi kjörum. Lækkun á endurgreiðslubyrði námslána mundi leiða til verulegra útgjalda fyrir ríkissjóð ef ekki ætti að stefna grundvelli lánasjóðsins í tvísýnu.

Með aukinni menntun hagnast bæði þjóðfélagið og einstaklingurinn sem hennar nýtur og við endurskoðun laga um Lánasjóð ísl. námsmanna þarf að taka tillit til mjög margra þátta, þar á meðal þess hvernig kostnaður og væntanlegur ávinningur af aukinni menntun á að skipast. Jafnframt þarf að horfa til þess að ekki verði um óhóflegar álögur á lánþega sjóðsins að ræða.