Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:58:01 (582)

2003-10-15 13:58:01# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Samkvæmt nýlegri samantekt hagsmunaaðila stúdenta kemur í ljós að endurgreiðsla námslána getur numið allt að einum mánaðarlaunum árlega eftir að námi lýkur. Það er því ljóst að endurgreiðsla námslána getur verið þungur baggi á nýútskrifuðum stúdentum. Í þessum hópi eru iðulega margir sem eru að koma sér upp fjölskyldu og þaki yfir höfuðið. Þetta er einnig hópur sem lendir í afar ósanngjörnu jaðarskattkerfi sem ríkisstjórnin virðist halda við ár eftir ár. Svo bætist við þung endurgreiðslubyrði námslána.

Ég vil koma þeim skilaboðum á framfæri við ráðherra að fögur orð í menntmálum nægja ekki lengur. Við þurfum aðgerðir og við þurfum þær núna. Ég hvet því hæstv. ráðherra og bendi honum á að það væri virkilegur sómi að því ef hæstv. menntmrh. gerði það sem eitt af síðustu embættisverkum sínum að bæta hag námsmanna rausnarlega enda er full þörf á því.